135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:25]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan halda þær upplýsingar sem við höfum fengið frá Lýðheilsustöð og sjónarmið frá landlæknisembættinu hinu gagnstæða fram, þ.e. að aukið aðgengi muni þýða aukna neyslu. Um þetta geta sjálfsagt verið skiptar skoðanir, líka meðal lækna. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.

Ég undirstrika það sem ég sagði í upphafi, að það er hægt að horfa á málefnið sem hér er til umræðu frá mörgum hliðum. Það er hægt að horfa á það út frá sjónarmiðinu frelsi, það er hægt að horfa á þetta frá sjónarmiði um nútímalega verslunarhætti, aðgengi að vörum, en einnig er hægt að horfa á þetta út frá áfengispólitík og lýðheilsu og allir þessir þættir hafa sitt að segja.

Kannski er það þess vegna sem þingmaðurinn upplifir það svo að ég sé kominn í hring að ég tel að allir þessir þættir eigi vissan rétt á sér og þarna verði að vega og meta hvað vegur þyngst. Ég hef gert grein fyrir því í ítarlegu máli hvað vegur þyngst í mínum huga. En það þýðir ekki að ég sé ósammála öllum hinum sjónarmiðunum í málinu, alls ekki. Ég tel viss atriði vega þyngst og það ræður afstöðu minni.