135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:27]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um að leyfa sölu á léttvíni og bjór í venjulegum matvöruverslunum, þ.e. um afnám ríkiseinkasölu á áfengi. Innihaldið er bara þetta, það er afnám ríkiseinkasölu á áfengi. (KVM: Á léttum vínum.) Á léttum vínum og bjór. Frumvarpið gengur út á þetta og ekkert annað.

Ég bendi á að lyf, meira að segja hættuleg lyf, ópíum og fleira, er selt af öðrum en opinberum starfsmönnum eða embættismönnum. Ég bendi á að fyrir nokkrum árum töldu menn að það þyrftu að vera opinberir starfsmenn sem afgreiddu peninga yfir borðið í bönkum. Menn bara sáu ekki annað fyrir sér. Ég bendi líka á að ef menn vilja, eins og menn tala um, forða mönnum frá því að neyta hættulegrar vöru í of miklum mæli ættu menn líka að banna feitan mat, rjóma og sykur og slíkt, vegna þess að offitusjúklingum fjölgar. Það eru ýmis sjónarmið sem menn geta bent á. En þetta frumvarp gengur eingöngu út á það að afnema ríkiseinkasölu á léttum vínum og bjór.

Þetta tengist því að frelsi einstaklinga til að versla og til að versla með vöru er takmarkað og ég vil benda á að það tengist frelsi einstaklinga, tengir saman frelsi þeirra og ábyrgð. Það er órjúfanlegt samband á milli frelsis og ábyrgðar. Um leið og maður takmarkar frelsi einhvers minnkar maður ábyrgð hans líka. Ég er á móti því að hv. þingmenn, sem ekki eru allir mjög gamlir, séu að hafa vit fyrir fullorðnu fólki úti í bæ, hvað það eigi að kaupa og hvar það eigi kaupa, eins og það hafi ekki vit á því þegar það sér vínflösku við hliðina á mjólkinni að sleppa því að kaupa vínið. (Gripið fram í.) Mér finnst alveg furðulegt að menn skuli leyfa sér að ætla að hafa vit fyrir fullorðnu fólki sem er jafnvel eldra en það sjálft. (Gripið fram í.)

Menn hafa svo rætt hér töluvert mikið um forvarnir og annað slíkt. Ég er hjartanlega sammála, við eigum að auka forvarnir, við eigum að kynna fyrir fólki, sérstaklega ungu fólki, þá vá sem fylgir ofnotkun áfengis, við eigum að kynna fyrir ungu fólki þann hræðilega veruleika sem fylgir ofdrykkjumönnum og fíklum nákvæmlega eins og á öðrum sviðum, eins og offitu og spilafíkn og eiturlyfjafíkn. Allt eru þetta fíknir þar sem ákveðnar vörutegundir taka völdin af vilja mannsins, hann hefur engan vilja lengur. Það er hættulegt.

Hér hefur nokkuð verið rætt um bann og að banna þetta og banna hitt og takmarka aðgengi o.s.frv. Ég bendi á að þegar mannskepnan hefur grun um að það fari að skorta einhverja vöru þá hamstrar hún, þegar menn óttast að það verði sykurskortur í verslunum þá hamstra menn sykur, miklu meiri en þeir þurfa. Ef menn óttast skort á bensíni þá hamstra menn bensín í aðdraganda verkfalla og svoleiðis. Nákvæmlega það sama gerist ef maður takmarkar aðgengi að vöru, menn hamstra þá sjaldan sem þeir komast í vöruna og kaupa meira en þeir ella gerðu. Ég er alveg sannfærður um að þetta er ákveðin skýring á því af hverju drykkjusiðir eru miklu verri í norðlægum löndum, Skandinavíulöndum, þar sem boð og bönn eru miklu meiri en sunnar í Evrópu, vegna þess að ef eitthvað er bannað þá hamstra menn. Við getum ekki gleymt þessu mannlega eðli í þessu sambandi.

Í þessu samhengi hafa menn líka talað um þá vá sem er í dag, það sé mjög slæm staða í dag varðandi eiturlyf, sem eru, nota bene, frú forseti, bönnuð. Samt virðist þeirra vera neytt þó að þau séu bönnuð, sem sýnir nú einmitt árangurinn af bönnum. Það er alls ekki þannig að ég sé að leggja til að heimila eigi eiturlyfin, nei, guð forði mér frá því, en ég er bara að benda á að bönnin hafa ekki endilega þau áhrif sem menn trúa.

Ættum við að banna utanlandsferðir? Þar drekka menn og menn gera það sem þeim dettur í hug á suðlægum ströndum. Það er bara nákvæmlega það sama. Ég vil líka benda á að einu sinni var gjaldeyrir á Íslandi bannaður og það var aldrei brotist svo inn í íbúð á Íslandi að ekki væri stolið gjaldeyri, allir hömstruðu gjaldeyri af því að hann var bannaður, skorturinn varð til þess að menn hömstruðu, fólk sem ekkert hafði við gjaldeyri að gera. Öll þess umræða um boð og bönn slær til baka á þennan hátt.

Svo er eitt sem menn hafa ekki minnst á og það er helgidómurinn áfengi. Til að nálgast áfengi þurfa menn að ganga inn í ákveðið musteri sem heitir Áfengisverslun ríkisins þar sem opinberir starfsmenn afgreiða mann eins og æðstu prestar. Þeir pakka þessari heilögu vöru inn í brúnan pappír svo það sé alveg á hreinu að þetta sé mjög helg vara og alveg sérstök og umfram alla aðra vöru. Svo fara menn heim með þennan helgidóm og neyta hans. Ég held að þessi helgi á vörunni hafi heilmikið með áfengisvandann að gera.

Ég hef búið í landi þar sem áfengi var selt í matvöruverslunum og ekki bara léttvín og bjór heldur líka sterkara áfengi og þetta var bara eins og hver önnur vara og ekkert umfram það. Ég hafði alltaf gaman af því að taka Íslendinga sem komu í heimsókn og fara með þá til kaupmannsins á horninu og sjá svipinn á þeim þegar þeir sáu viskíið við hliðina á mjólkinni. Þetta voru slík helgispjöll, þeir voru bara alveg agndofa yfir þessu. Eru þá ekki allir að kaupa viskí í því landi? Nei, menn keyptu ekki viskí. Í fyrsta lagi langaði suma ekkert í það og í öðru lagi þótti sumum það dýrt og svo voru sumir sem vildu bara ekkert neyta þessarar vöru.

Ég held að stefna okkar í áfengismálum hafi leitt okkur í ógöngur og ég hef enga trú á því að þetta frumvarp auki neyslu á áfengi, ekki eitt sér, alls ekki. Svo gæti ég náttúrlega verið andsnúinn þessu frumvarpi af allt öðrum ástæðum eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson benti á, af því að það gangi allt of stutt. Auðvitað á að vera hægt að kaupa viskí líka í matvöruverslunum, að sjálfsögðu, nema hvað? Auðvitað á að leyfa fólki að versla með áfengi eins og hverja aðra vöru. Á meðan við ekki bönnum vöruna eigum við að leyfa það. Það er ekki hægt að hafa vöru hálfbannaða.

Ég er alveg sammála því sem menn hafa sagt við mig og ég hef heyrt í umræðunni að þegar maður ætlar að gleypa fíl er eins gott að gera það í smábitum. Þetta er svona fyrsta skref sem hugsanlega fæst samþykkt, hugsanlega, ég veit ekki hvort hv. þingmenn eru orðnir nógu frjálslyndir eða þannig sinnaðir að þeir vilji ekki hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Það getur verið að komnir séu nægilega margir þingmenn inn á þing sem vilja ekki hafa vit fyrir samborgurum sínum og leyfa þeim að ráða svolítið sjálfir hvað þeir kaupa og hvar þeir kaupa, þannig að þetta frumvarp verði samþykkt. Kannski eru meiri líkur á að það verði samþykkt með veikari útfærslu, að bjór og léttvín verði seld í matvöruverslunum, en auðvitað ætti að selja allt áfengi í matvöruverslunum á meðan það er ekki bannað.