135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:37]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Allt er þetta spurningin um að vörunnar sé ekki neytt í óhófi. Forvarnir eiga einmitt að ganga út á það að kenna fólki og segja því að áfengi hafi þetta efni innifalið sem er vínandinn sem veldur ölvun. Allir ættu að vita að þeir þurfa að fara mjög varlega með þessa vöru nákvæmlega eins og með rjóma og annað slíkt. Ég hef talað við lækna sem eru að meðhöndla of feitt fólk, það er nákvæmlega sama sagan þar, það er fíkn. Það er fíkn í mat, það er fíkn í feitan mat og þetta er sálfræðilegt vandamál. Með sömu rökum, ef ofþyngd vex í þjóðfélaginu sem því miður virðist vera að bresta á, ættum við þá að banna rjóma, sælgæti og ýmislegt fleira, mjólk og feitt kjöt. Það endar bara með því að hv. þingmaður stendur inni í eldhúsi hjá fólki og segir því hvað það má borða.