135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:43]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög athyglisvert sjónarmið og kannski, ef nægilega margir hafa heyrt það, munu margir andstæðingar þessa frumvarps snúast á sveif með mér vegna þess að hv. þingmaður færði rök fyrir því að aðgengi muni minnka og það er það sem marga dreymir um, að aðgengi að áfengi minnki. Hins vegar mætti að sjálfsögðu í hv. nefnd sem fær þetta frumvarp til skoðunar setja inn ákvæði um að ÁTVR mætti ekki loka neinni verslun sem hún rekur í dag, hún yrði bara að halda áfram að selja viskí og sterk vín í þessum búðum sem eru sums staðar á landsbyggðinni inni í öðrum verslunum — það er svo merkilegt að þá gengur það allt í einu — og gerðir um það samningar eins og hingað til þannig að hún selji áfram sterk vín til að framboðið minnki nú ekki.