135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:46]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Við höfum rætt frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum varðandi sölu áfengis og tóbaks. Nú er annar dagurinn runninn upp í umræðunni og mér skilst að um 20 þingmenn hafi verið á mælendaskrá. Þetta sýnir náttúrlega, svo ekki sé meira sagt, hversu mikill áhugi er á þessu máli. Það er óskandi að það sé til vitnis um að nú sé komið að því að hv. þingmenn séu reiðubúnir að fallast á og samþykkja frumvarpið.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni að frumvarpið er í sjálfu sér mjög hógvært. Það er alveg hægt að hugsa sér að ganga lengra en hér er gert. Ég sé því ekki af hverju menn hafa, margir hverjir, brugðist svo óskaplega illa við frumvarpinu eins og það er lagt fram hér. Allt tal um að verið sé að ganga gegn eða gera lítið úr, liggur mér við að segja, forvörnum finnst mér sérkennilegt.

Ég hjó eftir því þegar hv. þm. Árni Johnsen flutti sína ágætu ræðu að hann hefur miklar áhyggjur af áfengisbölinu, og telur að með frumvarpinu séum við að stefna ungu fólki í mikla hættu. Ég held að það sé mikill misskilningur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þeir sem versla með áfengi verði að vera 20 ára gamlir. Það er lagaskylda í þá veru í landinu að áfengi megi ekki afhenda þeim sem eru yngri en 20 ára. Ég sé enga ástæðu til þess að það ætti að vera með einhverjum öðrum hætti þótt einkaaðilar komi að rekstrinum. Ég sé ekki af hverju það ætti að vera einhver óskapleg hætta á því að einkaaðilar brjóti þetta ákvæði frumvarpsins eða öllu heldur þá lagaskyldu sem fyrir er í landinu og fara að versla með vín til yngra fólks en gert er ráð fyrir. Og þegar menn eru að tala um þann vanda sem er svo sannarlega fólginn í vímuefnaneyslu — og það gerir enginn lítið úr því — vil ég ítreka það hér að þeir þingmenn sem standa fyrir frumvarpinu eru aldeilis ekki á þeirri skoðun að engin vandamál fylgi áfengisneyslu en það er rangt að segja að frumvarpið auki þann vanda. Og mér þykir sem menn tali dálítið út og suður þegar þetta mál er á dagskrá og þeir ræða jafnvel um það sem málið fjallar ekki um.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók skemmtilega til orða, hún sagði að hún tæki undir að misnotkun sé af hinu vonda og að ofnotkun sé af hinu vonda. Allir flutningsmenn frumvarpsins eru á þeirri skoðun að hætta stafi af allri misnotkun á vímuefnum og öðrum neysluvörum. Það á við um miklu fleiri vörur en léttvín og bjór. Það eru heilsufarsvandræði af offitu og fleiri slíkum hlutum en við tölum ekki um það með sama hætti og gert er þegar þetta mál er rætt. Mér finnst umræðan hafa farið út um víðan völl.

Menn hafa notað ýmis orð þegar þeir hafa lýst því hvað flutningsmönnum gengur til. Talað er um að við séum að tala fyrir frelsi og nútímalegum verslunarháttum, sem er svo sannarlega alveg hárrétt. Við erum að því. En við erum ekki, eins og sumir vilja segja, að ganga gegn vímuefnavörnum í landinu. Við erum ekki að því. Frumvarpið snýst ekki um það og það er rangt að halda því fram. Ég vona að hv. þingmenn ætli flutningsmönnum ekki slíkt. Það er einfaldlega rangt og það á sér engan stað í frumvarpinu.

Það hefur líka komið fram að þetta sé frjálshyggjufrumvarp, að frjálshyggjan ráði ríkjum í því. Það á, að mínu mati, ekki við rök að styðjast. Þá held ég að mönnum fari að þykja frjálshyggjan heldur slök ef það er orðin argasta frjálshyggja að menn geti keypt sér bjór í matvörubúð. Þá er orðið heldur tómlegt um að litast hjá frjálshyggjumönnum.

Eitt langar mig að nefna sérstaklega og varðar kannski þær miklu áhyggjur sem menn hafa af því hvernig um verði að litast ef frumvarpið yrði að lögum. Mér sýnist að menn hafi ýmsar skoðanir á því. Sumir segja að það sé svo mikið aðgengi nú þegar að víni að það borgi sig ekki að auka neitt frekar við það. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talaði í ágætri ræðu sinni töluvert um að aðgengi að vínbúðum væri svo gott að ekki þyrfti að bæta þar úr. Það getur vel verið að það sé þannig fyrir þá sem búa í Reykjavík en þannig er það ekki hjá þeim sem búa í dreifðum byggðum landsins.

Ég held því fram að þetta mál sé mjög gagnlegt fyrir landsbyggðarfólk, fyrir fólk sem býr úti á landi. Mér finnst pínulítið þröngt að halda að þetta sé þannig vaxið að þeir sem búa í dreifðum byggðum langt frá stærri bæjum hafi mikið aðgengi að því að kaupa bjór. Það er ekki þannig. Ég held að þetta frumvarp geti hjálpað til í því. Við þekkjum það mjög vel sem eigum heima annars staðar en í Reykjavík að oft þarf að keyra um langan veg til að kaupa sér rauðvín með matnum ef skyndilega brennur á manni að halda matarboð og ekki er til rauðvín í húsinu. Þá vandast nú málið á mörgum bæjum. Mér finnst það hreinlega ósanngjarnt gagnvart landsbyggðinni.

Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni að það megi ganga enn lengra. Það getur vel verið. En það að stíga þetta skref er verulega í áttina að því að opna fyrir verslun með áfengi. Þannig að ég vil halda þessu sérstaklega til haga. Þess vegna gladdi það mig mjög mikið að lesa í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta: „Í öðru lagi er aðilum eins og verslunarmiðstöðvum og byggðarlögum mismunað eftir staðsetningu útibúa.“

Ég held að þetta sé nefnilega hárrétt. Ég held að það sé akkúrat þannig sem þetta er. Ég held að bara út frá þeim sjónarmiðum ættu þingmenn að velta frumvarpinu fyrir sér og hugsa sér hvernig það er hjá þeim sem búa við það að hafa ekki Melabúðina, Ostabúðina og allar áfengisverslanir sem þingmenn hafa talið upp í sínu næsta nágrenni vegna þess að stór hluti þjóðarinnar býr ekki við þær aðstæður.

Mér þykir áhugavert að hugsa til þess að þetta mál hefur verið í þeim búningi sem það er hér í meðförum þingsins í fimm ár. Mér skilst að áður hafi það nú verið hér um nokkurra ára bil en þá í annarri mynd en nú er. Og ef ég hef skilið þær upplýsingar sem ég fékk frá þinginu rétt er þetta í fyrsta skipti sem málið fær svona mikla umræðu eins og hér hefur verið þessa síðustu tvo daga. Ég held að það megi merkja á því ákveðna breytingu. Ég held að það sé ákveðin krafa um að menn fái tækifæri til þess að kveða upp úr með það hvað þeim finnst um þetta mál.

Fram að þessu hefur málið komist til hv. allsherjarnefndar en það hefur ekki komist úr nefndinni. Ég vona að við fáum nú tækifæri, við hv. þingmenn hv. allsherjarnefndar, til að taka málið til umræðu og afgreiða það úr nefndinni. Ég býst við því að hv. þm. séra Karl Matthíasson hljóti að taka undir að eðlilegt sé að menn fái að kjósa um það hér hvort þeir vilji að frumvarpið verði að lögum eður ei en það sé ekki svæft í nefnd fimmta árið í röð.

Það er löngu tímabært að málið verði tekið til atkvæða og menn geti lýst skoðun sinni í atkvæðagreiðslu í stað þess að hafa þetta með þeim hætti sem verið hefur.

Ég skora á alla þá þingmenn sem sitja í hv. allsherjarnefnd að taka málið til athugunar og afgreiða það úr nefndinni þannig að þingheimur geti loksins sagt sína skoðun á því hvort ekki sé orðið tímabært og sjálfsagt að Íslendingar geti keypt sér léttvín og bjór í matvörubúðum.