135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:58]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að málið skuli hafa komist úr nefnd á síðasta þingi og ég vonast til þess að það sé til vitnis um að smátt og smátt hefur málið þokast áfram.

En vegna þess hversu snemma málið hefur komist á dagskrá tel ég kannski líklegra en áður að við getum þokað því lengra, og við lendum vonandi ekki í jólaönnunum með þetta mál.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson taldi upp hér áðan og þeim aðilum sem hafa áhyggjur af vímuefnanotkun í landinu. Mér þykir leitt ef hann heldur að við séum svo grunnhyggin, flutningsmenn frumvarpsins, að við teljum að ekki sé vímuefnavandi í landinu. Við erum ekki svo grunnhyggin að halda að vandinn sé ekki fyrir hendi víða. En ég er ekki sammála því að frumvarpið sé þannig úr garði gert að það ógni ástandinu umfram það sem nú er. Aðgengið er nú þegar töluvert eins og þingmenn hafa raunar sagt þótt að mínu mati sé það ekki nægilegt.

Ég hef ekki áður setið á hinu háa Alþingi og verð að viðurkenna að ég hef náttúrlega ekki fylgst með þessum umræðum algerlega í þaula á síðustu árum. En við þyrftum að skoða það í nefndinni hversu miklar samanburðarrannsóknir eru til í þessu, ég veit ekki um það. Það eru ekki afar mörg lönd, alla vega ekki lönd sem við miðum okkur við, sem hafa eins kerfi og við höfum hér á Íslandi. Það væri fróðlegt að fá meiri tilfinningu fyrir því hvernig þetta væri í samanburðinum við það ástand sem hefur ríkt og í samanburði við það ástand sem er annars staðar. (Forseti hringir.)