135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:03]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég teldi ekki óeðlilegt að við færum í sérstaka umræðu um hvernig forvörnum og vímuefnavörnum er háttað í landinu. Mér finnst það bara ekki eiga heima undir þessari umræðu.

Það getur vel verið að þingmaðurinn telji að þessi og hin umræðan sé ekki boðleg hér. Ég er honum bara ósammála um það. Ég er algjörlega ósammála honum um það. Ég tel upplagt að þetta mál fari til umræðu í nefndinni þar sem þessi sjónarmið verði tekin fyrir og þá kemur í ljós hver niðurstaða nefndarinnar er.

Hins vegar skal ég alveg segja það sem persónulega skoðun mína að mér finnst eðlilegt að mál fái framgang í nefndum og menn geti tjáð skoðanir sínar á þinginu. Það er mín skoðun. Hins vegar hef ég náttúrlega ekki fulla stjórn á Alþingi, grænjaxlinn, og þykist ekki hafa það.

Varðandi þetta með neysluna þá held ég — það getur vel verið að þingmaðurinn sé mér algjörlega ósammála um það líka — að í henni felist líka mikil aukning sem hefur orðið í ferðaþjónustu í landinu. Það hefur orðið gríðarleg aukning erlendra ferðamanna. Það hefur líka haft áhrif á áfengisneysluna. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeirri áfengisneyslu sem við Íslendingar sjáum um sjálf. Ég er ekki að gera það. Ég segi samt sem áður að mikill fjöldi ferðamanna hefur áhrif á þessar tölur sem við erum að horfa á.