135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:06]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki gott að taka Finnland sem dæmi í þessu efni. Það að þeir skyldu fara yfir landamærin til að kaupa sér vín er ekki staða sem við búum við á Íslandi. Við búum ekki við það. Það eina sem við erum að tala um í þessu frumvarpi er að flytja vínið og bjórinn úr ríkisrekinni búð í einkabúð. Af hverju halda menn að það þýði að drykkja ungmenna aukist? Af hverju heldur hv. þm. Karl V. Matthíasson það? Af hverju gengur hann út frá því sem vísu að drykkja ungs fólks muni aukast?

Það er talsvert um neyslu áfengis hjá ungu fólki í landinu. Þetta frumvarp hefur ekkert með það að gera. Það eru nákvæmlega sömu skilyrði í þessu frumvarpi gagnvart aldurstakmörkunum og eru í núverandi lögum. Ég hefði því gaman af því að heyra hvað ræður því að þingmaðurinn er svo staðfastur á því að drykkja ungmenna muni aukast verði vínið tekið úr ríkisreknum búðum og sett til einkarekinna aðila.

Varðandi aldursþáttinn, bara út af fyrir sig, er það svo að það er dálítið sérkennilegt, ég verð nú að segja það, að menn geti gift sig á Íslandi og bundist ýmsum böndum en þeir geti ekki skálað í kampavíni í tilefni dagsins.