135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:10]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil ekki af hverju við getum ekki fengið að vera í friði fyrir afskiptum ríkisvaldsins í þessum efnum. Ég skil það ekki. Mér finnst líka einkennilegt að þingmenn skuli halda að með þessum breytingum, með því að vín sé selt í annarri búð en í ríkisbúð, þá séum við að stuðla að frekari dauðsföllum fólks, að það sé svo. Það er ekki rétt.

Mér finnst mjög miður að menn skuli gera því skóna að með frumvarpi sem þessu geri menn lítið úr áfengisvanda og hér sé verið að auka hættuna á dauðsföllum, með því að færa vínið búð úr búð. (Gripið fram í.) Af hverju haldið þið þessu svona stíft fram?

Það gleður mig alveg sérstaklega að sjá að sestur er í salinn hv. þm. Jón Magnússon sem ég veit að er ábyggilega sammála öðrum fulltrúum allsherjarnefndar um að það sé sjálfsagt að þetta mál fái góðan framgang í nefndinni. Ég hlakka til að takast á um málið í allsherjarnefnd þar sem við förum yfir einstaka þætti þess og komumst að niðurstöðu.

Ég vona að það verði á þann veg að þingmenn fái nú tækifæri til að kjósa um málið. Ég ítreka að ég held að það sé kominn tími til að þingmenn fái að kjósa um það hvort þeim finnist eðlilegt að bjór og létt vín færist úr ríkisbúðum í einkabúðir.