135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er búin að vera löng og efnismikil umræða og hún leiðir auðvitað í ljós gríðarlega mikinn ágreining í röðum þingmanna um þetta mál sem hér er nú rætt. Ég hef ekki fylgst með umræðunni frá orði til orðs eða frá ræðu til ræðu svo það kann vel að vera að ég endurtaki eitthvað sem sagt hefur verið áður en það verður þá svo að vera. Ég treysti því að góð vísa sé aldrei of oft kveðin.

Ég er ekki stuðningsmaður þessa máls, virðulegi forseti, og hef ansi margt við það að athuga. Ég er hins vegar fylgjandi því að íslensk stjórnvöld setji sér áfengisstefnu sem verði metnaðarfull, áfengisstefnu sem hægt verði að fylgja í ákveðnum markvissum skrefum með tímasettum takmörkum eða markmiðum. Í sjálfu sér má segja að hægt sé að lesa ákveðna áfengisstefnu út úr heilbrigðisáætlun sem samþykkt hefur verið á Alþingi Íslendinga og við höfum raunar nýverið fengið viðamikinn bækling frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu um stöðu og endurskoðun meginmarkmiða þessarar heilbrigðisáætlunar sem gilda á til ársins 2010. Í þeim bæklingi kemur fram að ákveðnar breytingar séu að eiga sér stað varðandi áfengisneyslu, sumar gleðilegar en aðrar afar dapurlegar.

Það er alveg ljóst að áfengisdrykkja í ákveðnum aldurshópum hefur aukist mjög mikið en það sem er kannski fagnaðarefni er að eitthvað hefur dregið úr áfengisneyslunni í yngsta aldurshópnum. Var það sannarlega tímabært og sýnir okkur kannski að forvarnastarfið er að skila einhverjum árangri í yngstu aldurshópunum. En í heildina hefur áfengisneysla verið að aukast undanfarin ár. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið segir í þessari skýrslu að það megi sjálfsagt að einhverju leyti rekja til skipulegri markaðssetningar áfengis, aukins aðgengis að áfengum drykkjum og ýmissa breytinga í lífsháttum þjóðarinnar. Síðan kemur líka fram í þessari endurskoðun á heilbrigðisstefnunni að sett séu fram ný og metnaðarfyllri markmið til að auka líkurnar á að okkur takist að draga verulega úr áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks undir lögaldri og er gerð sérstök grein fyrir því.

Nú má nefna til sögunnar líka, eins og þingmenn hafa gert hér, skýrslu sem við höfum fengið frá Lýðheilsustöð og kannski sérstaklega athyglisverðan útdrátt úr bókinni Áfengi – engin venjuleg neysluvara, sem ég hef séð a.m.k. einn þingmann veifa úr þessum ræðustóli í dag. Það er að mínu mati, hæstv. forseti, mergurinn málsins, áfengi er engin venjuleg neysluvara.

Segja má að lög og reglugerðir myndi ákveðinn ramma utan um söluna á þessari vöru, sem er engin venjuleg neysluvara, og lög og reglur þurfa að mæla fyrir um árangursríkar aðferðir til að draga úr tjóni af völdum áfengis og tryggja þarf að áfengisstefna sé með þeim hætti að hægt sé að fara eftir henni og hún nái markmiðum sínum. Í bréfi frá Lýðheilsustöð sem við fengum með útdrættinum úr bókinni segir, með leyfi forseta:

„Faraldsfræðileg gögn sýna vel þá byrði sem hvílir á heimsbyggðinni sem rakin er til áfengis, sem seint verður flokkað sem venjuleg neysluvara. Talið er að neysla áfengis valdi um 4% allra sjúkdómstilfella í heiminum, tæplega 11% sjúkdómstilfella í Evrópu og árið 2002 létust um 600 þúsund Evrópubúar vegna áfengisneyslu en þar af voru rúmlega 63 þúsund á aldrinum 15–29 ára. Búist er við að á árinu 2005 muni 1,8 milljónir manna um allan heim látast vegna áfengistengdra vandamála.“

Ég spyr t.d. hv. þingmann sem talaði á undan mér, Ólöfu Nordal: Heldur hún því enn fram að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara? Eða hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur sem hélt því einmitt fram í ræðu sinni í gær að hér sé um að ræða frumvarp sem fjalli eingöngu um frjálsa verslun og við eigum að tala um forvarnamálin seinna. Halda þessir þingmenn því enn fram að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara? Eða ætla þessir hv. flutningsmenn frumvarpsins að láta sér í léttu rúmi liggja allar þær ábendingar sem við fáum frá stofnunum sem við höfum sett lög um að eigi að vera okkur til ráðgjafar eins og Lýðheilsustöð og ég tala nú ekki um heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, sem er náttúrlega svo óheppið að vera komið með í skipstjórasætið manninn var upphafsmaður þessa máls og flutti það fyrstur manna árum saman á Alþingi?

Í því sambandi langar mig til að segja, hæstv. forseti, að mér þykir dapurlegt að sjá hversu margir af flutningsmönnum þessa frumvarps eru starfandi alþingismenn í heilbrigðisnefnd Alþingis Íslendinga. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram í ræðum þingmanna áður að það er meiri hluti heilbrigðisnefndar Alþingis Íslendinga sem flytur þetta mál með þær viðvaranir í farteskinu sem Lýðheilsustöð, lögum samkvæmt, lætur okkur hafa og ég vitnaði til í bréfi frá Lýðheilsustöð sem við þingmenn fengum fyrir skemmstu. Ég spyr bara eins og börnin: Er ekki í lagi með fólkið? Ég hugsaði þegar ég byrjaði að skoða málið að réttast væri að vísa því ekki bara til allsherjarnefndar heldur líka til heilbrigðisnefndar en þegar ég áttaði mig á að meiri hluti heilbrigðisnefndar flytur málið ákvað ég að hætta við að leggja til að það yrði sent til heilbrigðisnefndar til umfjöllunar.

Hæstv. forseti. Ég hef margt til málanna að leggja sem ég þykist vita að menn hafi nefnt hér en mig langar mjög mikið til að segja frá reynslu Finna vegna þess að Finnar prófuðu á sjálfum sér og neytendum hvaða áhrif það hefur að setja bjór og létt vín í búðir. Þeir settu bjór í búðir og lækkuðu áfengisgjaldið árið 2004. Þeir hafa gert rannsóknir á áhrifum þess og þær rannsóknir sýna að sjúkdómum og dauðsföllum sem tengjast áfengisneyslu beint fjölgaði á tímabilinu um 19% og tíðni lifrarsjúkdóma jókst um 30%. Og núna, í ljósi niðurstaðna þeirra rannsókna sem Finnar hafa verið að gera á áhrifum þess að setja létt vín og bjór í búðir og lækka áfengisgjald, eru Finnar að endurskoða þær breytingar sem þeir gerðu á áfengislöggjöfinni 2004. Ég hvet hv. flutningsmenn frumvarpsins til að lesa þau gögn sem okkur eru aðgengileg um reynslu Finna í þessum efnum. Flutningsmenn geta ekki haldið því fram að það að setja bjór og létt vín í búðir hafi engin áhrif vegna þess að búið er að sýna fram á það í fleiri löndum að þeir hafa rangt fyrir sér. Niðurstöður rannsókna liggja fyrir í þeim efnum.

Af því að hv. flutningsmenn hafa sagt að það sé allt í lagi að ræða forvarnamálin en að við skulum bara ræða þau seinna, hefði ég haldið að meiri sómi væri að því að þessir þingmenn flyttu samhliða þessu máli breytingar á lögum um forvarnir. Það eru einhverjar hugmyndir uppi í greinargerð frumvarpsins um lækkun á áfengisgjaldi, sem lagt er til í greinargerðinni án þess að að sé lagt til í frumvarpinu, þá hefur einhvern veginn þrotið örendið, þeir hafa ekki klárað frumvarpið, þeir leggja ekki til að áfengisgjaldið sé lækkað nema á tæpri síðu greinargerðinni og þar segja þeir að ef áfengisgjaldið verði lækkað séu þeir tilbúnir að láta Forvarnasjóð fá 2% af áfengisgjaldinu en ekki 1% eins og nú er. En ég spyr: Af hverju lögðu þingmennirnir það ekki bara til að 2% af áfengisgjaldinu færi strax í forvarnir? Þá hefði verið sýndur einhver vilji til að viðurkenna að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. En flutningsmenn kjósa að horfa fram hjá því.

Ef við skoðum ástandið í Evrópu almennt þá vitum við að Evrópusambandið hefur ítrekað látið semja skýrslur um áfengisneyslu innan Evrópusambandsins. Samkvæmt þeirri nýlegustu sem ég hef séð er áætlað að 58 milljónir fullorðinna drekki óhóflega mikið áfengi og að 23 milljónir fullorðinna í Evrópulöndunum séu háðar áfengi. Það er talið að óhófleg áfengisneysla leiði til 195 þúsund dauðsfalla árlega og að árlegur samfélagslegur kostnaður vegna óhóflegrar áfengisneyslu nemi um 125 milljörðum evra. Og ætla menn áfram að halda því fram að þetta sé eins og hver önnur neysluvara? 600 þúsund Evrópubúar ... (SKK: Hver heldur því fram?) Hver heldur því fram? spyr hv. 1. flutningsmaður. Meðflutningsmenn hv. þingmanns hafa sagt það hér berum orðum og síðasti ræðumaður, hv. þm. Ólöf Nordal, hélt því fram aftur og aftur að hér væri eins og um hverja aðra neysluvöru að ræða. Það gerði hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir líka í ræðum í gær og jafnvel fleiri án þess að ég hafi heyrt það. En ég ætla að halda áfram að rekja staðreyndir máli mínu til stuðnings vegna þess að ég er ekki á því að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara. Talið er að um 600 þúsund Evrópubúar hafi látist vegna áfengisneyslu á árinu 2002 og það er talið að áfengisneysla valdi tæplega 11% sjúkdómstilfella í Evrópu eins og ég var raunar búin að segja áðan.

Það er alveg ljóst að áfengi veldur líka gríðarlegum félagslegum spjöllum. Áfengi gerir okkur mjög erfitt fyrir að rækta hér heilbrigðar fjölskyldur. Áfengi setur strik í reikninginn í uppeldi barna, ég þori ekki að fara með neinar tölur í þeim efnum en við þekkjum öll dæmi og það eru dapurleg áhrif sem áfengi hefur á börn á Íslandi og hvar sem er og við getum ekki annað en horft til þeirra félagslegu vandamála sem áfengi skapar þegar við ræðum mál af þessu tagi, mál af því tagi sem sýnt hefur verið fram á að komi til með að auka drykkju. Aukið aðgengi eykur drykkju.

Eitt vil ég sérstaklega nefna af því að flutningsmenn eru með ákveðnar takmarkanir á þessu í greinargerðinni, þeir segja að þeir hafi skilning á því að það þurfi að hafa ákveðið „system í galskabet“ þannig að það er ekki eins og þeir vilji gefa þetta allt saman 100% frjálst. Það er gert ráð fyrir takmörkunum vegna veitinga á smásöluleyfum og að verslanir sem kæmu til með að versla með áfengi samkvæmt hugmyndum þeirra mættu ekki vera lengur opnar en til klukkan átta og gert er ráð fyrir að starfsmenn sem afgreiði áfengi skuli vera a.m.k. 20 ára. Einhverjar takmarkanir vilja þessir hv. þingmenn setja á aðgengið og það finnst mér í sjálfu sér til marks um að þeir séu ekki algerlega skyni skroppnir, en um leið kemur frjálshyggjusetningin, frjálshyggjufrasinn sem stendur meira eða minna upp úr þeim öllum og þá verður hann dálítið kauðskur, af því að okkur er alltaf sagt hér að það eigi bara að láta fólki það eftir að meta þessa hluti sjálft, það eigi ekki að stýra þessum hlutum í gegnum löggjöf. Samt er hér ákveðin stýring lögð til af hv. flutningsmönnum.

En ég ætlaði ekki að fara inn á þá braut akkúrat núna, ég ætlaði að fara inn á aukið aðgengi en með því að setja áfengið í búðirnar, þ.e. léttvínið og bjórinn, þá er algerlega dagljóst að bölið sem við horfum fram á nú þegar varðandi auglýsingar á áfengi mundu stóraukast og verða miklu vandasamara því að einkareknar verslanir mundu að sjálfsögðu ganga enn meira á lagið en verslanir gera í dag með að auglýsa áfengið, bjórinn og léttvínið og vandræðin sem við eigum við að glíma núna varðandi áfengisauglýsingar er ærið og mundi bara aukast. Nú höfum við ársskýrslu Lýðheilsustöðvar frá 2006 þar sem varað er við því að auglýsingar séu heimilaðar eða látnar óátaldar í þeim mæli sem gert er á Íslandi í dag. Ég minni enn á að Lýðheilsustöð er stofnun sem samkvæmt lögum á að benda okkur á vegna þess að þar eru fagmennirnir, þar er fólkið sem þekkir þetta, fólkið sem gerir rannsóknirnar og það er skammarlegt til þess að vita að þingmenn skuli láta sér í léttu rúmi liggja og sem vind um eyru þjóta þær ábendingar sem við fáum frá því fagfólki sem best þekkir.

Í ársskýrslu Lýðheilsustöðvar kemur fram ákveðin samantekt á niðurstöðum könnunar sem gerð var 2004 á neysluvenjum framhaldsskólanema. Þar kemur í ljós að á seinni hluta 10. bekkjarins, þ.e. tímabilið frá lokum eða seinni hluta 10. bekkjar fram til hausts í framhaldsskóla virðist vera verulegur áhættutími hvað varðar ölvunardrykkju og notkun vímuefna, þannig að ungt fólk sem við vitum að er mjög opið fyrir auglýsingum samkvæmt öllum neyslukönnunum, fólk á nákvæmlega þessum aldri er mjög opið fyrir auglýsingum, yrði sérstaklega útsett fyrir áhrifum aukins auglýsingaflóðs í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Ég heyrði á máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar áðan að hann teldi málið vera hófsamt og það kann vel að vera að fleiri þingmenn hafi talið að svo sé en þegar maður ber saman málið sjálft og röksemdir þeirra sem það flytja og ábendingarnar sem við fáum frá Lýðheilsustöð og úr heilbrigðisáætluninni okkar þá er það deginum ljósara að menn fara hér villir vegar. Málið er ekki hófsamt, málið gengur mjög langt í því að auka aðgengi þó svo að ég sé sammála ábendingu frá hv. þm. Kjartani Ólafssyni sem kom með það áðan að úti á landi er hætt við að tegundir yrðu mun einhæfari. Jafnvel þó að aðgengi yrði meira þá er mér mjög til efs að þeir sem selja áfengi á fámennum stöðum út um land stæðu sig jafn vel og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur gert því Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur árum saman starfað eftir ákveðnu sölukerfi og ég er með Stefnu og áherslur ÁTVR, reyndar gamlan bækling sem ég átti í fórum mínum, þar sem sagt er og gerð er grein fyrir því á hvern hátt Áfengis- og tóbaksverslunin hefur reynt að tryggja tegundafjölbreytni í búðum sínum. Þar kemur fram að á stærri stöðum eins og Akureyri, Hafnarfirði, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Austurstræti, Mjódd, Holtagörðum og fleiri stöðum, Mosfellsbæ og Selfossi, séu að hámarki um 400 sölutegundir til staðar í búðunum en á minni stöðunum, eins og Akranesi, Borgarnesi, Egilsstöðum, Ísafirði og Sauðárkróki, séu sölutegundirnar um 280 og á enn minni stöðum, Ólafsvík, Stykkishólmi, Blönduósi, Siglufirði, Dalvík, Húsavík, Neskaupstað, Höfn og Grindavík, fáist að hámarki 170 tegundir. Ég er algerlega sannfærð um það, virðulegi forseti, að ef við færum þetta allt til einkaaðila mundi sú tegundafjölbreytni sem fólk á landsbyggðinni hefur aðgang að núna hrynja niður. Fólki yrði kannski boðið upp á Bónusbjór og Bónushvítvín í kössum eins og hefur verið nefnt í ræðum þingmanna. Ég verð að segja að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hefur staðið sig afar vel í því að sinna markmiðum sínum og starfar eftir mjög strangri löggjöf sem við höfum sett á Alþingi, hefur tryggt að ákveðinn tegundafjölbreytileiki sé hjá fólki úti á landi á fámennari stöðum. Slíkt yrði ekki ef hún yrði lögð af og auðvitað yrði hún lögð af mjög fljótt (Gripið fram í.) eftir að þetta frumvarp yrði að lögum, því að auðvitað er meginmarkmið þeirra flutningsmanna sem það flytja að á endanum og sennilega fyrr en nokkurn grunar að því fyrr því betra, gæti ég ímyndað mér að flutningsmenn segðu, yrði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lögð niður.

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða eitt af stærri deilumálum sem koma fyrir þingið. Við höfum áður tekist á um það í sölum Alþingis og gerum það enn. Mér þykir miður að flutningsmenn skuli sækja þetta svona fast og skuli ekki taka þeim rökum sem hér eru á borð borin fyrir þau af okkur sem andmælum frumvarpinu. Mér sýnist að menn séu fulleinsýnir í ákefð sinni við að koma málinu í gegn og vildi satt að segja óska að hér væri tekið meira mark á þeim þungu rökum sem koma frá þeim stofnunum sem hér hafa verið nefndar og er þar fremst í flokki okkar ágæta Lýðheilsustöð.