135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf við Norðmenn og Dani á sviði öryggismála.

104. mál
[13:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er eðlileg ráðstöfun af hálfu íslenskra stjórnvalda eftir að bandaríski herinn er farinn af landi brott að leita eftir nánara samstarfi við nágrannalönd okkar, m.a. á Norðurlöndum, og það er í samræmi við þær áherslur sem Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt í varnarmálum.

Ég vil samt vekja athygli á því sem ég held að við þurfum mest að huga að um þessar mundir en það er ógnin af hugsanlegu olíu- og mengunarslysi við landið í kjölfar vaxandi siglinga sem spáð er að verði um landið eða nálægt því. Ég vil setja fram þau sjónarmið að íslensk stjórnvöld eigi fyrst og fremst að leggja sig fram um að gera sér grein fyrir því að hve miklu leyti við viljum þola slíka umferð við landið eða nálægt því og leitast við að ná alþjóðlegu samkomulagi um að takmarka slíkar siglingar við hagsmuni okkar.