135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf við Norðmenn og Dani á sviði öryggismála.

104. mál
[13:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim ágæta tón sem ég heyri hjá hæstv. ráðherra þó að lítið bitastætt hafi komið fram. Við vonum auðvitað að menn vinni áfram að því að fylla út í þennan samning. En mér leikur forvitni á að vita: Hvar liggur forustan? Nú er þetta samningur sem hæstv. utanríkisráðherra undirritar þannig að maður hefur tilhneigingu til að ætla að forustan sé í utanríkisráðuneytinu. Á sama tíma vitum við að þessi störf lúta bæði að björgunarstörfum en líka að varnar- og öryggismálum. Það snertir bæði dómsmálaráðuneyti, sem Landhelgisgæslan heyrir undir, og utanríkisráðuneyti, sem hernaðarleg mál heyra undir.

Ég heyrði að hæstv. ráðherra sagði að þessa hluti þyrfti að skoða og skilgreina frekar þegar að því kæmi en getur ráðherra tekið undir það að forustan í þessum samningum liggi hjá utanríkisráðuneytinu? Ég spyr líka: Hvað gerum við? Hvað skeður ef hér sekkur stórt olíuflutningaskip, ef hér sekkur farþegaskip með þúsundir manna um borð eða ef hér eru þúsundir manna á fundi og eitthvað gerist? Hver grípur þá til aðgerða? Er forustan hjá utanríkisráðuneytinu eða er hún hjá dómsmálaráðuneytinu? Um björgunarstörf væri að ræða en við þyrftum að kalla til hernaðartæki og hafa samband við hernaðaryfirvöld. Við þyrftum að kalla til herskip, varðskip frá öðrum löndum, þyrlur og flugvélar. Mundi forustan liggja hjá utanríkisráðuneytinu eða dómsmálaráðuneytinu eða í samstarfi þessara ráðuneyta ef slíkt stórslys (ÖS: Þetta er engin hernaðaraðgerð.) bæri að höndum? Það er mjög eðlilegt að þingmenn spyrji að þessu. Það er ekki fráleitt að slíkt geti gerst. (ÖJ: Hernaðaraðgerð ...)