135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf við Norðmenn og Dani á sviði öryggismála.

104. mál
[13:44]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna sem hér á sér stað og þau sjónarmið sem fram komu hjá þingmönnum. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að kannski þarf eitthvað að velta því fyrir sér hversu mikilli umferð og hvernig umferð, hvaða stærð af skipum t.d., búast megi við og hvað þetta hafsvæði þá þoli. En þetta eru alþjóðlegar skipaleiðir og við getum ekki tekið einhliða ákvarðanir.

Það er rétt, sem hér kom fram, að samkomulagið sem gert var við Norðmenn og Dani byggist á NATO-samningnum og til þess er vísað í samkomulaginu. Hvort ólýðræðislega hafi verið að málum staðið, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði, ætla ég ekki að fjalla um hér. Þessir samningar eru ekki gerðir í minni tíð sem utanríkisráðherra en þeir komu náttúrlega til almennrar umfjöllunar. Hafa verður í huga að þetta eru rammasamningar, viljayfirlýsingar, en ekki samningar sem ekki er hægt að breyta með þriggja mánaða uppsögn ef því er að skipta. Það er ekki þannig að þessu staðið að allt sé geirneglt.

Fjármunir eru ekki svo miklir í þessu að við þurfum að hafa áhyggjur af því. Spurt var um forustu, hver væri með forustu í þessu máli. Í samkomulaginu sjálfu er til þess vísað, m.a. um leitar- og björgunarþjónustu og almannavarnaviðbúnað, að hlutaðeigandi ráðuneyti eigi að hafa samstarf og það er alveg ljóst að um dómsmálaráðuneyti er að ræða á því sviði. Hins vegar er einnig til þess tekið að varnarsamstarf, heimsóknir og æfingar eða slíkar aðgerðir, heyrir undir utanríkisráðuneyti. Það fer eftir eðli máls hvaða ráðuneyti hafa forustu á mismunandi sviðum.