135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

verklagsreglur við töku þvagsýna.

78. mál
[13:53]
Hlusta

Þorvaldur Ingvarsson (S):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að þetta er mjög þarft mál. Setja verður samræmdar verklagsreglur sem gilda alls staðar um þessi mál. Ég hef sjálfur sem heilbrigðisstarfsmaður staðið í þeim sporum að þurfa að taka sýni og þá fyrst og fremst blóðsýni og ég minnist þess ekki og þá meina ég aldrei að hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að þvinga fólk til að taka þvagsýni. Ég held að það sé augljóst mál að þarna var um einstakt tilfelli að ræða sem hlýtur að verða að koma í veg fyrir að endurtaki sig.

Það er alveg ljóst að þau efni sem verið var að leita að útskiljast allt að tvo sólarhringa í þvagi og því var valdbeitingar ekki þörf við þessar aðstæður, og það sem meira er út frá heilbrigðissjónarmiðum er hún beinlínis hættuleg, sama hvernig á það er litið. Og þær aðstæður sem koma upp við þvingun af þessu tagi eru ekki mönnum bjóðandi.