135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

verklagsreglur við töku þvagsýna.

78. mál
[13:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn, sem kemur því miður ekki til af góðu inn á Alþingi og er vegna þess atviks sem hér hefur verið rætt um. Sömuleiðis þakka ég þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni, annars vegar hv. þm. Atla Gíslasyni sem er lögfræðingur og fjallaði um málið frá því sjónarhorni og hins vegar hv. þm. Þorvaldi Ingvarssyni lækni sem ræddi um það frá sínu sjónarhorni. Það var afar fróðlegt að hlusta á það.

Ég vil aðeins ítreka að ég vona að sú nefnd sem ég hef skipað vinni hratt og vel og að settar verði samræmdar reglur um þetta. Ég ítreka einnig það sem ég sagði í lok svars míns áðan að þetta snýst líka um að tryggja bæði lögreglumönnum og starfsfólki heilbrigðisstofnana öruggt starfsumhverfi í þessum efnum og skýran lagaramma, vegna þess að þetta er orðið vaxandi vandamál og mikið um að taka þurfi alls konar sýni vegna ölvunaraksturs og eiturlyfja sem komin eru þarna inn, því miður.