135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

fangelsismál.

99. mál
[14:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ýmislegt er jákvætt í fangelsismálum hér en þar eru líka neikvæð mál. Innra starfið hefur verið bætt þó að það þurfi að bæta reyndar sálfræðiþjónustu og meðferðarúrræði. Biðlistar eru ekki tiltölulega langir hér eins og víða í nágrannalöndum okkar þannig að hægt er að gefa plús fyrir þetta. En það verður að teljast alveg geysilega stór mínus hvernig byggingarnar eru. Þær eru ekki sæmandi. Varðandi Hegningarhúsið sem er á undanþágum þá er það á annað hundrað ára gamalt og hentar alls ekki. Þar eru tveir í klefa. Þar er ekki einu sinni einn í klefa. Það eru sumir sem eru tveir í klefa þannig að það verður að fara að loka þessu.

Kvennafangelsið er þannig að þegar þeir sem þar eru fara út í garð þá er bara hangið á grindverkinu og fangarnir spyrja: „Ert þú fangi?“ Þetta gengur bara alls ekki upp. Það er ekki mannsæmandi að búa svona að föngunum. Þessa stóru mínusa verður að laga.

Það er verið að lækka fjárveitingar í fjárlögum til þessa málaflokks, til bygginga, og hér segir hæstv. ráðherra að það eigi að selja land og nýta það til að byggja upp á Litla-Hrauni. Ég spyr þá: Hvað má áætla að það land gefi mikið í aðra hönd, af því að það kostar 500 milljónir að byggja upp brýnar byggingar á Litla-Hrauni og svo kostar í kringum einn og hálfan milljarð, að mér skilst, að byggja upp Hólmsheiðarfangelsið sem verður að fara að byggja upp líka. Ég vil taka það fram að það mun ekki draga úr umsvifum á Litla-Hrauni þó það verði byggt upp á Hólmsheiði. Föngum mun fjölga um 10–15% hér á næstu tíu árum. Þær kannanir sem gerðar hafa verið sýna það.

En það er rétt sem kemur fram hjá ráðherranum að himinn og haf skilur milli okkar og Bandaríkjanna. Við erum með 40 fanga á hverja 100 þúsund íbúa. Hvað halda menn að það séu margir fangar á 100 þúsund íbúa í Bandaríkjunum? Þeir eru 700 þannig að við værum með 2.100 fanga hér ef við værum í Bandaríkjunum, þ.e. miðað við íbúatölu. En við erum bara með 120–130 þannig að þar skilur himinn og haf á milli og við höfum ekkert þangað að sækja svo sem í fangelsismálum. Ég vara við einkarekstri á fangelsum (Gripið fram í.) en ég er tilbúin til að skoða (Gripið fram í.) einkaframkvæmd varðandi byggingarmálin.