135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

samstarf Íslands, Noregs og Danmerkur um björgunarmál og almannavarnir.

105. mál
[14:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn er nátengd fyrirspurn sem var svarað hér áðan af hæstv. utanríkisráðherra og byggist á rammasamkomulaginu sem gert var 26. apríl sl. milli Íslands og Noregs annars vegar og Íslands og Danmerkur hins vegar. Þar er tínt til að unnið verði að samstarfi milli Íslands og þessara ríkja, Danmerkur og Noregs, á sviði björgunarmála og almannavarna. Ég hef líka skoðað ræður hæstv. dómsmálaráðherra sem hann hefur flutt bæði í Noregi nýlega og á NATO-fundinum. Þar kemur ráðherrann fram með athyglisverðar hugmyndir um svokallaðan Multilateral North Atlantic Coastguard Forum, sem ætti sem sagt að skoða öryggi og varnir á hafinu, í Norður-Atlantshafi og á norðurheimskautssvæðinu.

Mér finnst þessar hugmyndir mjög spennandi og vil því spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þær. Hvað er búið að skoða þær vel í stjórnsýslunni? Eru þetta einkaskoðanir hæstv. ráðherra eða hefur þetta verið rætt milli dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis? Mjög sterkir snertifletir eru á milli þessara ráðuneyta og alveg ljóst að ef sett yrði upp starfsemi af þessu tagi hlyti það að tengjast bæði borgaralegri og hernaðarlegri starfsemi. Skipan björgunarmála er með þeim hætti í nágrannaríkjum okkar að ekki einungis borgaralegar stofnanir koma að þeim, ekki einungis borgaraleg tæki heldur líka hernaðarleg tæki. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra út í það hve langt þessar hugmyndir eru komnar.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig samstarfi er háttað á milli dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis varðandi þetta rammasamkomulag almennt. Er það þannig að fulltrúar beggja ráðuneyta sækja fundi sem haldnir eru? Haldinn var fundur með Norðmönnum nú nýlega og fundur verður haldinn með Dönum 5. nóvember. Eru fulltrúar beggja ráðuneyta á þessum fundum á jafnræðisgrundvelli? Eigum við nokkuð á hættu að utanríkisráðuneytið keyri eina línu og dómsmálaráðuneytið einhverja allt aðra? Það væri auðvitað mjög óheppilegt. Ég vil gjarnan spyrja hve langt undirbúningsstarfið er komið á vegum ráðuneytisins í samstarfi við Landhelgisgæsluna varðandi það að fylla út í rammasamkomulagið. Ég vil einnig nýta tækifærið og fagna því góða samstarfi sem ég veit að Landhelgisgæslan hefur átt við systurstofnanir sínar á Norðurlöndunum.