135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

embætti umboðsmanns sjúklinga.

115. mál
[14:50]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hugmyndir um umboðsmann sjúklinga hefur oft borið upp á borð Alþingis á undanförnum árum og yfirleitt með það í huga að umboðsmaður sjúklinga taki við kærum og kvörtunum frá notendum heilbrigðisþjónustunnar. Í dag gegnir landlæknir því hlutverki. Mér heyrðist hins vegar á fyrirspurn hv. þingmanns að það væri frekar kallað eftir því hlutverki hjá umboðsmanni sjúklinga að hann kallaði eftir frekari upplýsingum fyrir sjúklinga. Ég held að það megi leysa með allt öðrum hætti, ég held að það megi leysa með því að gera ríkari kröfur á stofnanir eins og Tryggingastofnun, heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisyfirvöld um upplýsingar innan kerfisins. Það má gera með bættu aðgengi að upplýsingum, t.d. með símaráðgjöf þar sem fólk getur leitað slíkra upplýsinga. En ég er sammála hæstv. heilbrigðisráðherra um að landlæknisembættið gegnir hinu hlutverkinu mjög vel í dag.