135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:53]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér hefur komið fram að skuldir sjávarútvegsins hafi aukist um 200 milljarða á síðustu 10 árum. Útflutningsverðmætið er 125 milljarðar á síðasta ári, skuldirnar 304 milljarðar. Þetta er staðan og hún er ógnvænleg. Hún er svo ógnvænleg að allt eins má búast við hruni ef allar ytri aðstæður verða ekki eins og best verður á kosið.

Af þessum 304 milljörðum kr. greiða fyrirtækin 25–40 milljarða í ársvexti af 125 milljarða útflutningsverðmæti. Svona vaxtaokur og vaxtabyrði gengur ekki upp nema í hergagnaiðnaðinum, klámiðnaðinum og fíkniefnaiðnaðinum, það er svo einfalt. Og ekki bætir kvótaskerðingin stöðuna.

Árið í fyrra reddaðist vegna hagstæðrar gengisþróunar og vegna hækkaðs verðs á afurðum erlendis. Sú er ekki raunin núna, gengisþróunin er óhagstæð og þá má jafnvel tala um að bankarnir, einokunarbankarnir, hagræði vöxtunum eins og þeim hentar tímabundið. Og þeir geta það. Ég hef mestar áhyggjur af þessu vaxtaokri og ég hef mestar áhyggjur af framgöngu einokunarbankanna sem fara fram án samfélagslegs tillits, hugsa bara um ofsagróða. Eða e.t.v. eru þeir að hugsa um allt annað, hugsa um stóru fyrirtækin í sjávarútveginum, þessi fáu stóru sem eiga stóra hluti í bankanum. Er veðsetningin í aflaheimildunum kannski með þeim tilgangi að eignast þær allar? Er stefnt að því, að koma hér á allsherjareinokun í sjávarútvegi? Er það það sem sjálfstæðismenn vilja? Er það frelsið?

Það er kominn tími til að ríkisstjórnin láti ekki eins og aðgerðalaus áhorfandi heldur grípi til úrræða. Maður spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvað hyggst hann fyrir? (Forseti hringir.)