135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér er, ég tel brýnt að ræða um skuldsetningu í atvinnuvegum á Íslandi en vil byrja á því að taka undir með þeim ræðumönnum hérna sem hafa vakið athygli á því að skuldsetning hefur aukist mun meira og er líka hlutfallslega mun meiri í flestum öðrum atvinnugreinum. Þær atvinnugreinar eru yfirleitt taldar virðulegri en þær atvinnugreinar sem hv. þm. Atli Gíslason taldi hérna upp áðan sem helst væri til að jafna. Auðvitað eru atvinnugreinar misskemmtilegar.

Ég held að það sem hér um ræðir snúi ekki eingöngu að sjávarútvegi, það snúi í rauninni fyrst og fremst að því misvægi sem er milli atvinnuveganna og sem gerir hagkerfinu mjög erfitt fyrir þegar það vaxtastig sem sumir atvinnuvegir þola er síðan allt of hátt fyrir aðra atvinnuvegi. Það markerar í rauninni atvinnulífið mjög mikið núna í útrásinni, útrásaratvinnuvegirnir og fjármálageirinn þola mjög háa vexti sem hinir atvinnuvegirnir þola ekki og það er eðlilegt að menn þá taki eigið fé út úr sjávarútvegsfyrirtækjunum. Við því er ekkert að segja og þetta hefur ekkert með óráðsíu í þeim atvinnugreinum að gera.

Það er aftur á móti mjög mikið áhyggjuefni að vaxtastigið á Íslandi er nú komið langt upp fyrir það sem nokkur atvinnuvegur þolir og ríkisstjórnin er algjörlega aðgerðalaus. Í sumar heyrðum við af því að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hefðu mikinn áhuga á að taka á þessu máli en eftir að þing kom saman hefur slokknað algjörlega á þeim og meira að segja hæstv. byggðamálaráðherra sem átti það til að vera stjórnarandstæðingur á nóttunni í sumar (Forseti hringir.) — nú eftir að fór að stytta daginn verðum við þess ekki vör.