135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:46]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra skýr svör. Það stendur ekki til að einkavæða Landsvirkjun, kærar þakkir. Og ég óska Samfylkingunni líka til hamingju. Þeir ætla að standa í lappirnar. Þeir ætla að standa gegn þessu. Til hamingju Samfylking. Þið hafið tekið við okkar hlutverki, Framsóknarflokksins, að þessu leyti. [Hlátrasköll í þingsal.]

Hæstv. forsætisráðherra sagði hins vegar, og það var eftirtektarvert og vekur athygli: Það getur hugsast að við háeffum. Hann kann að leiða menn í bandi, hæstv. forsætisráðherra. Hann veit það um leið að hann fer með Samfylkinguna. Og hér kom hinn hugprúði næturmaður Samfylkingarinnar, hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, og bjó sig undir að fallast á háeffun Landsvirkjunar með makalausri ræðu. Þannig að hér stendur mikið til.

Þetta eru stór mál, orkumálin og orkufyrirtækin eru inni í nýrri umræðu og í nýju ljósi á miklum hraða á Íslandi. Allir stjórnmálamenn verða að fara yfir þá stöðu. Við getum hugsað fimm ár aftur í tímann. Þá var þessi vegferð ekki hafin. Ný vegferð er hafin og menn horfa til orkufyrirtækjanna og orku landsins, háhitasvæðanna, vatnsfallanna, með gull í auga. Það er verkefni stjórnmálamannanna að fara varlega í þessu. Við verðum að viðurkenna að okkur ber, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að setjast niður og fara yfir þessi mál af mikilli vandvirkni. Hér ber að fara varlega. Hér ber að marka (Forseti hringir.) skynsamlega stefnu til framtíðar.