135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:50]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hóf vil ég taka undir ummæli hv. þm. Helga Hjörvars. Ekki er annað hægt en að hafa að minnst kosti gaman af því að sjá hversu liprir framsóknarmenn eru á fótunum. Að hafa nú fyrir nokkrum mánuðum, m.a. í starfi sínu í einkavæðingarnefnd og í ráðherranefnd um einkavæðingu, staðið að því að selja Hitaveitu Suðurnesja og koma síðan örfáum vikum síðar og segja að þetta sé sú stefna sem Framsóknarflokkurinn sé tilbúinn til að láta allt í sölurnar fyrir og hvika hvergi frá. Þetta sýnir að endurnýjunarmáttur Framsóknarflokksins er meiri en margir töldu.

Hvað varðar umræðuna um Landsvirkjun hef ég bent á að um það bil 85%, ætli það sé ekki nærri lagi, af orkusölu þess fyrirtækis renna til stóriðju. Ég hef efasemdir um að heppilegt sé fyrir ríkisvaldið að standa í stóriðjurekstri og hef ítrekað lýst þeirri skoðun minni. Ég tel að rökstyðja þurfi það alveg sérstaklega að fyrirtæki eins og Landsvirkjun, með 85% af orkusölu sinni til áliðnaðar fyrst og fremst, sé í eigu hins opinbera.

Ég tel umhugsunarefni þær reglur sem gilda í stjórn Landsvirkjunar um leynd á orkuverði sem rökstuddar eru með mikilvægum viðskiptahagsmunum og eiga sín rök. Á sama tíma hljótum við borgararnir að eiga kröfu á því að vita á hvaða verði er verið að selja. Þessi tvö sjónarmið samrýmast mjög illa, það er að segja viðskiptasjónarmið Landsvirkjunar annars vegar og reglur almennrar stjórnsýslu og upplýsingalöggjafarinnar.

Ég tel nauðsynlegt að leita úr slíkri stöðu og hef því verið talsmaður þess að menn skoði það mjög alvarlega hvort ekki sé hægt að breyta um eignarhald á þessu fyrirtæki.