135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[10:57]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Frumvarp þetta er liður í áformum ríkisstjórnarinnar um að endurskipuleggja Stjórnarráðið og ráðuneytin innan þess til þess að þau geti betur sinnt sínum margþættu og mikilvægu verkefnum.

Tónninn var gefinn í fyrsta lagi með breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands sem samþykktar voru á sumarþinginu í júnímánuði síðastliðnum, en þar var kveðið á um sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyta. Nöfnum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis annars vegar og félagsmálaráðuneytis hins vegar breytt til að endurspegla fyrirhugaðan flutning málefna á milli ráðuneytanna og Hagstofa Íslands lögð niður sem ráðuneyti.

Í öðru lagi er þetta frumvarp lagt fram vegna breytinga á ýmsum sérlögum sem þarf að gera vegna tilfærslu málefna milli ráðuneyta.

Í þriðja lagi verða lögð fram sérstök frumvörp um Hagstofuna sem ríkisstofnun og er það mál á dagskrá hér á þessum fundi, um Keflavíkurflugvöll í tengslum við flutning málefna sem tengjast vellinum í sambærilegt horf og almennt gildir í stjórnsýslunni og um breytta verkaskiptingu og tilflutning málefna frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Í fjórða lagi verður síðan reglugerð um Stjórnarráð Íslands breytt en þar er að finna nákvæma verkaskiptingu milli ráðuneyta.

Gildistaka allra þessara breytinga er að meginstefnu miðuð við næstkomandi áramót.

Markmiðið með þessari endurskipulagningu á Stjórnarráði Íslands er einfaldari stjórnsýsla og að skyldum málefnum sé skipað undir eina stjórn þannig að ráðuneyti og ríkisstofnanir sem í hlut eiga verði fyrir vikið öflugri og skilvirkari einingar. Þessi vinna hefur einnig sýnt að það eitt að ákveða flutning málefna milli ráðuneyta getur falið í sér sóknarfæri. Menn byrja að leita að möguleikum til að hagræða, hugsa tilhögun mála upp á nýtt og skoða frá grunni hvernig stjórnsýslu ríkisins verði sem best háttað í þágu almennings.

Frumvarpið sem hér er mælt fyrir felur í sér nauðsynlegar lagabreytingar aðrar en þær sem fluttar verða í sérstökum frumvörpum eins og ég áður sagði. Lagðar eru til nauðsynlegar lagabreytingar til samræmis við fyrirhugaða tilfærslu málefna milli ráðuneyta. Má segja að þar sé fyrst og fremst um formlega og einfalda breytingu að ræða á heitum ráðherra í sérlögum af ýmsum toga.

Þannig háttar til í þremur fyrstu þáttum frumvarpsins sem kveða á um fyrirhugaðan flutning sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis, fyrirhugaðan flutning ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og fyrirhugaðan flutning alferða frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Í fjórða þætti frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um búnaðarfræðslu vegna fyrirhugaðs flutnings menntastofnana landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Jafnframt eru ákvæði um viðurkenningu, námsframboð og prófgráður þessara stofnana færð til samræmis við gildandi rammalög um háskóla nr. 63/2006. Búfræðslulög munu hins vegar áfram gilda sem sérlög um skólana með hliðstæðum hætti og sérlög sem í gildi eru um einstaka ríkisháskóla. Um þessar mundir er unnið að endurskoðun sérlaga um opinbera háskóla. Áfram verður unnið að þeirri endurskoðun og samræmingu sem mælt er fyrir um í ákvæði til bráðabirgða með gildandi rammalögum um háskóla.

Til að tryggja aðkomu landbúnaðarins að rannsóknarstarfsemi skólans munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og menntmálaráðherra standa í sameiningu að gerð rannsóknarsamnings við skólann til þriggja til fimm ára á grundvelli laga um háskóla. Þá verða 160 millj. kr. af framlagi til rannsókna við skólann vistaðar áfram hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti munu í samráði við Bændasamtök Íslands og menntamálaráðuneyti semja sérstaklega við skólann til þriggja til fimm ára um rannsóknir í þágu landbúnaðar fyrir andvirði þeirrar fjárhæðar.

Í fimmta þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins færist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Samhliða þessum breytingum eru gerðar tillögur um lagabreytingar til að einfalda framkvæmd dýraverndar með búfé og til að tryggja betur sjónarmið umhverfisverndar við innflutning á dýrum. Áfram verður unnið að endurskoðun laga um búfjárhald og laga um dýravernd til að skýra valdmörk og einfalda stjórnsýslu í málaflokknum.

Samkomulag er á milli viðkomandi ráðuneyta um að fjármunir til verkefnisins Bændur græða landið, sem ætlaðir eru til uppgræðslu á heimajörðum bænda og eru nú á fjárlagalið Landgræðslunnar verði á forræði og fjárlagalið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Ráðuneytið mun gera samning til þriggja ára um að Landgræðslan annist framkvæmd og eftirlit með þeim verkefnum á sama hátt og stofnunin hefur gert til þessa. Þá munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra standa í sameiningu að gerð rannsóknarsamnings við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá til þriggja til fimm ára um rannsóknir í þágu skógræktar, í fyrsta sinn á árinu 2008. Fjármunir til hagnýtra rannsóknaverkefna á sviði landbúnaðar, sem nú eru á viðfangsefni 04-321-1.10 Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, verða áfram hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Gert er ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í samráði við Bændasamtök Íslands og umhverfisráðuneyti geri samning til þriggja ára við Skógrækt ríkisins um að Rannsóknastöðin á Mógilsá annist tilteknar rannsóknir í þágu landbúnaðar fyrir að minnsta kosti andvirði þeirrar fjárhæðar árlega með sama hætti og verið hefur til þessa.

Í sjötta þætti frumvarpsins er að finna tillögur um lagabreytingar vegna fyrirhugaðs flutnings vatnamælinga frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytisins. Vatnamælingar sem nú eru hluti af Orkustofnun verða færðar til nýrrar stofnunar ásamt núverandi starfsemi Veðurstofu Íslands. Til að gefa nægilegt svigrúm til þessarar sameiningar er lagt til að umhverfisráðherra verði falið að vinna að því að setja hina nýju stofnun á fót á árinu 2008, þar með talið að því er varðar nauðsynlegar lagabreytingar.

Í sjöunda þætti frumvarpsins er gert ráð fyrir því að heiti Landbúnaðarstofnunar verði breytt í Matvælaeftirlitið og að hún fari með verkefni sem verið hafa hjá Fiskistofu og matvælasviði Umhverfisstofnunar og snerta hennar málefnasvið. Sú sameining mun auka samhæfingu og bæta eftirlit á öllum stigum matvælaframleiðslu en einnig efla samkeppnisstöðu og orðspor íslenskrar matvælaframleiðslu á mörkuðum. Er þetta gott dæmi um þau tækifæri sem leynast í því þegar verkaskipting milli ráðuneyta er endurskipulögð. Gert er ráð fyrir að starfsmenn sem ráðnir hafa verið hjá matvælasviði Fiskistofu og matvælasviði Umhverfisstofnunar haldi störfum sínum og óbreyttum starfskjörum hjá Matvælaeftirlitinu.

Í áttunda þætti frumvarpsins er lagt til að málefni er varða Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins verði flutt frá viðskiptaráðherra til iðnaðarráðherra. Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands eru nýsköpun og tækniþróun á meðal þeirra verkefna sem falla undir verksvið iðnaðarráðuneytisins. Málefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hafa hins vegar heyrt undir viðskiptaráðuneytið til þessa. Nýsköpunarsjóður er hluti af stærri heild, en hann er veigamikill þáttur í stuðningskerfi atvinnulífsins. Starfsemi hans þarf því að taka mið af heildstæðri stefnumótun um nýsköpun og atvinnuþróun. Á árinu 2007 voru samþykktar breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, en samhliða því frumvarpi var samþykkt frumvarp um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Með því er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tengdur við stefnumótun í málefnum rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Í ljósi þessa þykir eðlilegt að málefni sjóðsins heyri undir iðnaðarráðuneytið.

Í níunda þætti frumvarpsins er að finna breytingar sem leiðir af tillögu um að Einkaleyfastofa og hugverkaréttindi önnur en höfundaréttur, svo sem einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd, heyri undir viðskiptaráðuneytið. Áfram er gert ráð fyrir því að málefni er snúa að hönnun heyri undir iðnaðarráðuneytið.

Í tíunda þætti frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem leiðir af flutningi málefna er varða fasteignir frá dómsmálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis, en gert er ráð fyrir því að forræði á lögum um fasteignakaup og lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa færist til viðskiptaráðuneytisins 1. janúar 2008.

Í ellefta þætti frumvarpsins er síðan lagt til að kveðið verði skýrt á um það í lögum um Stjórnarráð Íslands að þegar málefni eru færð milli ráðuneyta skuli stjórnsýslumál sem ólokið er við flutninginn færast til hins nýja ráðuneytis.

Við undirbúning frumvarpsins í hlutaðeigandi ráðuneytum hefur verið haft víðtækt samráð við þær stofnanir sem hlut eiga að máli. Hvað varðar nánari útlistun á tilfærslu málefna og rökin fyrir breytingum í einstökum atriðum vísa ég til athugasemda við frumvarpið.

Legg ég síðan til, virðulegi forseti, að máli þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.