135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[11:07]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það tekur hæstv. forsætisráðherra ekki kortér að tala fyrir þeim ljótasta bandormi sem hefur verið fluttur á þingi Íslendinga sennilega í sögunni, um breytingar á Stjórnarráðinu með svo einskærlega asnalegum hætti, einstaklega. Tveir stjórnmálamenn semja um, sextíu og einn á að éta. Ég harma þessi vinnubrögð. Ég mun taka þátt í þessari umræðu. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um þrjú atriði.

Getur hann nefnt mér eitt atriði sem rökfærir það að Landgræðslan skuli færð undir verndar- og eftirlitsráðuneytið umhverfisráðuneyti frá landbúnaðarráðuneyti?

Í öðru lagi: Getur hann nefnt mér eitt atriði sem réttlætir það að vísindamenn Skógræktar Íslands árið 2007 séu á einu bretti hirtir frá landbúnaðinum, þegar skógræktin og landbúnaðurinn þurfa eitt þúsund skógarbændur til á Íslandi? Vísindamennina skal taka á einu bretti og fara með frá fagráðuneytinu yfir í verndarráðuneyti.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. forsætisráðherra: Getur hann rökstutt það að hæstv. menntamálaráðherra ráði tilraunastöðvum landbúnaðarins, en ekki landbúnaðarráðherra, á Hesti, á Möðruvöllum, á Stóra-Ármóti, á Hvanneyri?

Ég vænti heiðarlegra svara og mun koma inn í þessa umræðu. Þessi bandormur er ljótur (Forseti hringir.) og hann er tilviljunarkennt samkomulag tveggja forustumanna í pólitík, samkomulag sem þingflokkar þeirra hafa ekki rætt (Forseti hringir.) af athygli og eru hér komnir hráir inn til umræðu, hæstv forseti, því miður.