135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[11:10]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt smekksatriði hvort þessi bandormur sé ljótur eða ekki. En það er misskilningur að hann fjalli um lögin um Stjórnarráðið. Það er aðeins ein grein í þessum bandormi sem fjallar um stjórnarráðslögin og hún fjallar um málsmeðferð gagnvart málum sem er ólokið þegar tilflutningur verður. Hér er verið að breyta ýmsum öðrum lögum vegna þeirrar niðurstöðu sem kynnt var á sumarþinginu um breytingar á Stjórnarráðinu og verkefnum einstakra ráðuneyta. Þess vegna er svona mörgum lögum breytt hér og víðast hvar er aðeins verið að skipta um heiti á viðkomandi ráðherra sem verður ábyrgðarmaður málaflokksins eftir breytingarnar.

Varðandi þau atriði sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega og varða landbúnaðinn þá fór ég yfir það í ræðu minni hvaða samkomulag hefur verið gert um þau mál. Ég virði fullkomlega þau sjónarmið hans og þær áhyggjur sem hann hefur út af þeirri starfsemi sem hann ber fyrir brjósti á sviði landbúnaðarins. En ég get fullvissað hann um að hér er verið, ef eitthvað er, að búa til betra og skilvirkara kerfi fyrir þær stofnanir sem þarna eiga hlut að máli og efast ekkert um að hann þarf ekki að óttast að Landgræðslan, Skógræktin eða landbúnaðarskólarnir fari verr út úr þessu en áður var.

Ég tel að það sé hagsmunamál fyrir landbúnaðarháskólana að um þá sé fjallað í hinni almennu rammalöggjöf um háskóla og þeir séu eins og hverjar aðrar háskólastofnanir en að sérstöðu þeirra sé sinnt með sérstökum samningum milli menntamálaráðuneytisins, viðkomandi stofnunar og svo landbúnaðarráðuneytisins. Um það er fjallað í greinargerð með frumvarpinu og á það minntist ég mjög ítarlega í framsöguræðu minni.