135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

Hagstofa Íslands og opinber hagskýrslugerð.

128. mál
[11:36]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki athugasemdir við frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. En í tengslum við frumvarpið, vegna þess að verið er að breyta Hagstofu Íslands í stofnun sem áður taldist ráðuneyti, langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra — hann hefur látið þau orð falla úr þessum ræðustól að verið sé að fækka ráðuneytum og vissulega er hægt að færa rök fyrir því með því að segja sem svo að verið sé að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og leggja Hagstofuna niður sem ráðuneyti.

En hins vegar er verið að kljúfa í sundur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin sem hafa verið samrekin alllengi. Nú skulu þau vera tvö ráðuneyti, eins og þekkt er, með tveimur ráðherrum. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að standa við það? Ég vil líka spyrja hann að því hvort hann sé stoltur af því að ekki skuli hafa verið gengið lengra í þessum efnum. Á síðasta kjörtímabili var hafin vinna, vissulega að frumkvæði framsóknarmanna, en með þátttöku sjálfstæðismanna, sem miðaði að því að fækka ráðuneytum og koma á meiri hagræðingu í hinni ágætu stjórnsýslu okkar og þannig að spara fjármuni. Er hæstv. forsætisráðherra stoltur af útkomunni úr þeirri vinnu sem birtist okkur í þeim frumvörpum sem eru hér til umfjöllunar?