135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

Hagstofa Íslands og opinber hagskýrslugerð.

128. mál
[11:41]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nú bæði hreina og góða samvisku. En varðandi það sem þingmaðurinn spurði um, og rætt var hér fyrir kosningar, þá leitaði ég eftir því hvort formenn stjórnmálaflokkanna gætu náð samstöðu um að flytja saman frumvarp um að hægt yrði að gera tilteknar lágmarksbreytingar á Stjórnarráðinu eftir kosningar án lagabreytinga. Þannig að hvaða flokkar svo sem yrðu í stjórnarmyndunarviðræðum gætu þeir nýtt sér slíka heimild til þess að skipa málum á nýjan veg innan Stjórnarráðsins. Hugmyndin gekk með öðrum orðum út á það að auka sveigjanleikann varðandi breytingar á Stjórnarráðinu. Við þekkjum það frá öðrum löndum að þegar verið er að mynda ríkisstjórnir þá er verkaskiptingu milli ráðuneyta og jafnvel heitum ráðuneyta iðulega breytt án þess að slíkt þurfi að gera með lögum.

Ég leitaði eftir því fyrir kosningar hvort við gætum búið til svigrúm til þessa fyrir alla flokka, hver svo sem fengi stjórnarmyndunarumboð og hvaða flokkar sem í því stæðu. Á það var ekki fallist. Um það varð ekki samstaða. Þess vegna voru engar breytingar á stjórnarráðslögunum fyrir kosningar, því miður, það hefði einfaldað málið á margan hátt. En nú er komin inn í lögin heimild til að sameina meginráðuneyti án lagabreytinga og það er vissulega skref í áttina og hluti af því sem ég lagði til í marsmánuði á þessu ári.

Úr því sem komið var þurfti ég nauðsynlega að breyta sjálfum stjórnarráðslögunum. Það var gert á síðasta vori. Nú erum við sem sagt að ræða afleiðingar þess, með þeim frumvörpum sem hér eru á dagskrá í dag. Fleiri frumvörp eru svo væntanleg eins og ég boðaði fyrr á þessum fundi.