135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[11:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni jákvæðar undirtektir. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að það er ekki oft sem framkvæmdarvaldið kemur með frumvörp sem miða beinlínis að því að lækka álögur á atvinnulífið. Ég taldi það hins vegar óhjákvæmilegt í þessu tilliti. Ég taldi að mér bæri skylda, í reynd túlka ég 31. gr. raforkulaganna þannig, til að fylgjast með því hvort gjaldið sem þarna væri innheimt væri meira en kostnaður. Ég legg þann skilning í 1. mgr. 31. gr. að gjaldið sem innheimt er eigi bara að standa undir kostnaði.

Sem betur fer er hægt að sýna fram á að kostnaður Orkustofnunar vegna þessa eftirlits hefur lítið sem ekkert aukist á síðustu árum. Á hinn bóginn hafa tekjurnar sem hafa runnið í ríkissjóð á þessum tíma aukist og eru töluvert umfram kostnaðinn. Þar af leiðandi tel ég að framkvæmdarvaldinu beri skylda til þess að leggja til lækkun.

Hv. þingmaður benti á þá staðreynd að líklegt væri að raforkuframleiðsla mundi aukast á næstu árum. Hún spyr þá hvort ekki megi vænta þess að gjaldið verði lækkað enn frekar. Í öðru lagi spyr hún hvort það ætti e.t.v. að endurskoða þetta árlega. Svarið við báðum spurningum gæti verið játandi, þ.e. það er alveg ljóst, út frá túlkun minni á lagagreininni, að þegar í ljós kemur að framleiðsla á raforku hefur aukist sem leiðir til þess að tekjurnar verði aftur umfram kostnaðinn þá á að lækka gjaldið. Ég mun síðan skoða það nokkuð vel hvort það sé ástæða til að gera það árlega. Hugsanlega mætti vel hugsa sér það fyrirkomulag að þetta væri reyndar ekki ákveðið með lögum heldur með reglugerð þannig að þetta yrði liprara og það væri hægt að laga gjaldið að breytingum á markaðnum.