135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:02]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hugsanlegt að ég haldi hér ræður síðar í dag og fjalli ítarlegar um ýmsar af þeim spurningum sem hv. þingmaður spurði mig. Sumar þeirra koma mér þó ekki beinlínis við en það getur vel verið að ég geti samt upplýst hana af minni takmörkuðu þekkingu um eitthvað af þessu. Það kemur mér hins vegar á óvart hversu föst hv. þingmaður er í álinu. Það virðist sem hún sé að agnúast hér út í netþjónabú af því að hún telur að þau skerði á einhvern hátt drauma hennar um að álvæða hvern einasta fjörð í landinu. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að ég hef enga fordóma gagnvart áli. Ég hef enga fordóma gagnvart stóriðju eins og Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar, húðskammaði mig fyrir í kosningabaráttunni.

Það kemur mér líka á óvart að fyrrverandi iðnaðarráðherra skuli ekki hafa snefil af þekkingu á netþjónabúum. Ég taldi þó að hún hefði, eins og að ýmsu öðru, lagt gjörva hönd að því að undirbúa þá starfsemi hér á landi. Gagnamiðstöðvar eru mjög margs konar, netþjónabú eru ein tegund þeirra. Það er mjög mismunandi hversu orkufrek þau eru. Tilhneigingin núna er að slíkar miðstöðvar renni saman í stórar miðstöðvar sem geta tekið allt upp í 50 megavött. Starfsemi sumra þeirra er mannfrek, 75 manns og allt upp í 100 manns. Hv. þingmaður spurði mig hversu mörg störf skapist við 100 megavött af orku. Þau gætu verið 150 og yfir 200, það fer eftir eðli þeirra. En það eru líka til litlar gagnamiðstöðvar sem heppilegt væri að reyna að koma upp úti á landi. Þær nota einhvers staðar á bilinu 5–15 megavött. Iðnaðarráðuneytið á í samstarfi við 10 sveitarfélög, þar á meðal Sauðárkrók og Ísafjörð, um að reyna að finna slíkri starfsemi stað á vettvangi þeirra. Til þess að það sé hægt þarf að gefa þeim kost á að greiða hið sama fyrir flutning og stórnotandi. Þetta er sem sagt aðgerð til að aðstoða við það. Ef það er ekki hægt er allri loku skotið fyrir það að hægt sé að staðsetja þær úti á landsbyggðinni. Það er einungis hinn göfugi tilgangur með þessari breytingu frumvarpsins.