135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:04]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki annað í huga en að ræða málefnalega við hæstv. iðnaðarráðherra um þetta mál og það að hann skuli koma hér með skæting gagnvart mér sýnir náttúrlega betur hans innri mann en það sem ég hafði í huga. Ef það er svo að 100 megavatta netþjónabú veitir 150 störf þá er það hið besta mál. Ég lýsi yfir ánægju með að hæstv. ráðherra sýnir áhuga á því að slík starfsemi geti jafnvel átt sér stað úti á landsbyggðinni og það mundi skipta verulega miklu máli. Þá er kannski spurningin sú hvort flutningskerfi okkar sé nægilega öflugt til að taka á móti slíkri starfsemi utan við suðvesturhringinn sem er umhverfis höfuðborgarsvæðið og þá er ég að tala um 250 kílóvatta línur. Það getur verið að horfa þurfi til þess líka. En það er vissulega mjög mikilvægt ef eitthvað af þessari starfsemi getur farið fram úti á landsbyggðinni.

Svo vil ég segja í lokin, hæstv. forseti, fyrst ég hef tíma. Það er ekkert sem segir að ég sé föst í álinu þó að ég dragi fram mikilvægi þeirrar álframleiðslu sem nú þegar er á Íslandi og mun náttúrlega skipta sköpum núna varðandi útflutningstekjur okkar þegar við þurfum að draga saman í þorskveiðum. Þá er eins gott að við skulum vera búin að koma á þeirri starfsemi sem raun ber vitni, eins og t.d. hjá Fjarðaáli og stækkuninni í Hvalfirði.