135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingar á raforkulögum frá árinu 2003 og það eru einkum þrír þættir sem þar er tekið á. Í fyrsta lagi hvað varðar breytingu á skilgreiningu laganna á stórnotanda. Í öðru lagi lögbindingu á verkefnatengdu neyðarsamstarfi raforkukerfisins. Í þriðja lagi breytingar á fjárhæð gjalds vegna eftirlits samkvæmt þessum lögum. Ég ætla að staðnæmast við fyrsta þáttinn.

Samkvæmt þeim raforkulögum sem nú eru í gildi er kveðið á um að stórnotandi sé notandi sem notar á einum stað a.m.k. 14 megavatta afl með árlegum nýtingartíma 8.000 stundir eða meira. Þeir sem nota svo mikið magn orku geta tengst flutningskerfi raforku beint en ekki um dreifiveitu og greiða fyrir flutning raforkunnar samkvæmt gjaldskrá fyrir stórnotendur. Samkvæmt þessu frumvarpi er þetta mark fært úr 14 megavöttum niður í 8 megavött.

Fram til þessa og samkvæmt þeim lögum sem eru nú við lýði hafa eingöngu stóriðjuver fallið undir skilgreiningu stórnotanda en aðrir aðilar með háan nýtingartíma hafa sýnt því áhuga að komast undir þessa skilgreiningu laganna og njóta þeirra kjara sem stóriðjufyrirtækin búa við.

Hæstv. ráðherra hefur verið talsmaður þess að við alla vega skoðum þann kost að auðvelda svokölluðum netþjónabúum að koma á fót starfsemi hér á landi, það sé atvinnuskapandi og sé til styrkingar landsbyggðinni eða gæti orðið. Ég velti því stundum fyrir mér hvort við séum um of föst í því farinu að tengja uppbyggingu atvinnustarfsemi orkufrekri starfsemi. Ef við viljum ekki ál þá hljótum við að vilja einhverja aðra orkufreka starfsemi. Ef við viljum ekki álver á Bakka á Húsavík þá hljóti að koma þar netþjónabú.

Ég skal játa að mér finnst og hefur stundum fundist þessi kostur geta verið meira freistandi en mengandi stóriðja þó að ég hafi ekki skoðað allar hliðar þess máls. Það kemur fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra að við þurfum að gæta að því að setja ekki öll netþjónabú undir einn og sama hattinn, þau séu mjög mismunandi stór og krefjist þar af leiðandi mismikillar orku. En ég vil leggja áherslu á þann þátt að við eigum ekki að festa okkur í því fari að atvinnuuppbygging sé ómöguleg án þess að um orkufreka starfsemi sé að ræða. Við skulum ekki gleyma því að þegar fram líða stundir höfum við nóg með orkuna að gera hér á landi til ýmissa þarfa og starfsemi sem þegar er fyrir hendi.

Ég vil fá að heyra það frá hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann hafi hugað að annarri atvinnustarfsemi hvað varðar vildarkjör á raforku, starfsemi sem þegar er við lýði í landinu. Þá er ég að horfa til landbúnaðarins, til garðyrkju og gróðurhúsaræktar margvíslegrar en talsmenn þeirrar starfsemi hafa haft uppi kröfur á undanförnum árum um að fá rafmagn á hagstæðari kjörum en verið hefur.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið því mjög fylgjandi að styrkja innlendan atvinnurekstur, og þá ekki síst til sveita í þessu skyni. Það hefur verið mjög blóðugt fyrir íslensk atvinnufyrirtæki, og að sjálfsögðu heimilin einnig, að horfa upp á þá hrikalegu mismunun sem landsmenn búa við, sem atvinnureksturinn býr við, þegar horft er til stóriðjunnar annars vegar og annarrar atvinnustarfsemi hins vegar. Mér þætti vænt um að heyra hvort það hafi verið kannað við gerð þessa lagafrumvarps að láta hugtakið ná til atvinnustarfsemi af því tagi sem ég hef vísað hér til.