135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[12:28]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér á sér stað áhugaverð umræða. Ég vil aðeins segja stuttlega um það sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði um álver og netþjónabú sem stillt er upp sem andstæðum eða hann orðar það þannig að hann telji ekki heppilegt að vera með öll eggin í sömu körfu og ég tek undir það. En á það verður auðvitað að líta að netþjónabúin geta verið stórnotendur orku. Þessi mál eins og við horfum á þau eru annars vegar kannski í stórum dráttum spurning um mengun. Netþjónabúin menga ekki eins og álverin en þau geta notað jafnmikla orku. Það er líka takmörkuð auðlind. Í því samhengi verður auðvitað að horfa á netþjónabúin.

Hann fjallar hér um landbúnaðinn sem mér finnst líka mikilvægt og ég skil hæstv. iðnaðarráðherra að hann telji að því séu takmörk sett hvað hann geti farið inn á önnur verksvið. En ég minni á að iðnaðarráðuneytið er líka byggðamálaráðuneyti og þetta er stórt byggðamál. Mér finnst því, herra forseti, að hæstv. ráðherra geti tekið þetta upp undir þeim hatti að vera stórt byggðamál. Ég tel að hann ætti þess vegna að hafa frumkvæði að því eða sammælast um það við hæstv. landbúnaðarráðherra sem var nú hér á sveimi rétt áðan, að taka þetta til sérstakrar skoðunar. Auðvitað er það rétt ábending að það megi kannski gera í þingnefndinni. En þá verða menn að hafa tíma og tækifæri til þess. Þá verður að gefa það svigrúm sem þarf til þess að skoða það. Ég held nefnilega að það sé mikilvægt fyrir okkar landbúnað og fyrir okkar dreifðu byggðir og sömuleiðis hugsanlega fyrir vöruverð, verð á íslensku grænmeti, að komið sé til móts við þessi sjónarmið í landbúnaði. Ég vildi gjarnan koma þessu á framfæri við hæstv. ráðherra og þigg gjarnan svör hans við þessum spurningum.