135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:00]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ósammála skoðunum hv. þm. Guðna Ágústssonar. Það er ekki verið að vinna nein skemmdarverk í landbúnaðarráðuneytinu eða á landbúnaðarráðuneytinu. Landbúnaðarráðuneytið mun eftir sem áður hafa mjög veigamikið hlutverk. Það er alveg rétt að það er verið að gera tilteknar breytingar en engu að síður er það svo að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mun halda utan um vísindapeningana sem við höfum með höndum. Við gerum sérstaka samninga við landbúnaðarháskólana um ráðstöfun þeirra þannig að það er ekki verið að taka, eins og hv. þingmaður sagði áðan, allt vísindastarfið frá landbúnaðinum og færa það eitthvert annað. Eftir sem áður getur landbúnaðurinn haldið utan um þetta, haft áhrif á ráðstöfun þessa fjármagns og þar fram eftir götunum.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði í sambandi við skógræktina er nákvæmlega það sama þar upp á teningnum. Vísindastofnunin Mógilsá verður fjármögnuð að hluta til með samningi við landbúnaðarráðuneytið sem hefur auðvitað með þeim hætti tryggt aðkomu landbúnaðarins að þessum vísindaverkefnum. Svo má ekki gleyma því að langstærsti hluti skógræktarinnar, þ.e. skógræktin í landshlutabundnu skógræktarverkefni, verður áfram hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Það er það sem mest er að gerast í þessum efnum varðandi verkefnin.

Það nákvæmlega sama gildir auðvitað um Bændur græða landið. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki verið að gefa okkur til kynna með ræðu sinni áðan að verkefni eins og Bændur græða landið sé eitthvert smáverkefni, það sé pínulítill hluti af landgræðslunni í landinu. Ég hef a.m.k. litið þannig á að þetta verkefni, Bændur græða landið, hlyti að vera einn af stóru þáttunum í landgræðslustörfunum í landinu og þess vegna skipti mjög miklu máli að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið héldi utan um það alveg eins og gert er ráð fyrir hér og hér hefur verið gerð grein fyrir.

Þetta er algerlega rangt hjá hv. þingmanni, það er ekkert óalgengt að tiltekin atvinnugrein sæki þjónustu til stofnana (Forseti hringir.) sem eru undir öðru ráðuneyti og með þessum hætti er verið að tryggja beina aðkomu (Forseti hringir.) greinarinnar að þessum málum eins og ég hef gert grein fyrir.