135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:07]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mín skoðun að það sé löngu tímabært að skólar landbúnaðarkerfisins fari undir menntamálaráðuneytið en það þarf líka að huga að útfærslu margra þeirra í framtíðinni, sérstaklega litlu skólanna eins og hv. þm. Guðni Ágústsson vék að áðan. Það þarf að tryggja að það sé samræmi og í takt við möguleikana og tenginguna við landsbyggðina.

Ég tek undir orð hv. þm. Guðna Ágústssonar til varnaðar því að vel þarf að gæta að öllu er lýtur að tilfærslu landgræðslu og skógræktar. Það kann að vera hægt að finna rök fyrir því að færa það til eins og gert er en ég held að það sé ekki rétt leið vegna þess fyrst og fremst að það er verið að lengja leiðina milli sveita landsins, fólksins í landinu sem á meira undir högg að sækja í þeim efnum en aðrir landsmenn að það sé styttri leið í þessar stofnanir. Það er ekki af hinu góða.

Fólkið í sveitum landsins býr ekki við kröfuhörku. Það býr við allsanngjörn sjónarmið og þess vegna á ekki að rífa upp með rótum þær einingar í kerfi þjóðfélagsins sem styrkja þessar byggðir upp á metnað að gera. Fólkið í sveitum landsins hefur fyrir hönd þessara stofnana metnað og stolt. Þess vegna er ekki skynsamlegt að færa þessa hluti fjær fólkinu sem á undir högg að sækja og hefur trú á því að þessar stofnanir í þess nánasta umhverfi, í þess nánasta sambandi, séu aðgengilegar og skapi metnað sem styrki stöðu (Forseti hringir.)