135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:10]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það stóð ekki á því. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ræðu hans. Hann kemur fram og er fullur efasemda og ég hygg að þeir muni verða fleiri. Þess vegna hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að taka málið til skoðunar. Það er ekki bara, hæstv. forseti, að það sé verið að færa verkefni fjær fólkinu. Í því sem ég hef farið yfir er á mörgum sviðum verið að færa verkefni frá atvinnuvegaráðuneyti yfir á stað þar sem þau verkefni eiga ekki heima í stjórnsýslunni. Það er það sem menn verða að fara yfir í þingflokkum stjórnarflokkanna. Nú treysti ég því auðvitað þegar ég hef hlustað á þessa ræðu hv. þingmanns sem hefur vitnað um efasemdir sínar með skyldum og skýrum rökum að það muni fleiri gera í Sjálfstæðisflokknum og þess vegna í Samfylkingunni. Ég hygg að í báðum þessum flokkum sé fólk sem hefur tilfinningu fyrir því að Landgræðslan og Skógrækt ríkisins gegna gríðarlega miklu hlutverki og eiga 100 ára sögu. Menn eiga ekkert að setja þessar stofnanir í þennan vafa. Þær þurfa að þjóna þessu landi áfram og ég óttast að ef þessi leið verður farin fari þessar stofnanir sem þjóna atvinnuveginum frá honum. Þá er hlutverk þeirra farið og þá verður engin Skógrækt ríkisins á Hallormsstað eða Mógilsá og engar höfuðstöðvar í Gunnarsholti.