135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:12]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fyrst og fremst mikilvægt að halda ákveðinni yfirvegun í framgangi þessara mála. Ég efast ekkert um að báðir stjórnarflokkarnir vilja gera þetta eins vel og hægt er áður en í gadda er slegið. Það er tilhneiging til firringar í þjóðfélagi okkar, hún kemur víða fram, óvenjuleg firring sem hefur grasserað um nokkurt árabil. Við megum ekki láta þessa firringu flæða yfir allt landið en það gerum við með því að raska þeim viðmiðunum sem fólkið í hinum dreifðu byggðum hefur. Það hefur ákveðna viðmiðun, ákveðnar hefðir sem byggjast á þróun menningar til langs tíma og þetta er eitt af því sem þarf að fara mjög varlega í.