135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:16]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir segir að ræða mín hafi verið íhaldssöm. Henni leiðist ekki íhaldið lengur. Á hún kannski eftir að verða dálítið íhaldssöm í faðmi þess?

Ég held reyndar, hæstv. forseti, að ræða mín hafi í sjálfu sér ekki verið íhaldssöm. Ég held að hún hafi verið róttæk. Ég þekki þá málaflokka sem ég var að fara með. Ég veit að þeir eru í gríðarlegri framför. Landbúnaðurinn þolir ekki þessa breytingu. Hann þarf á öllu sínu afli að halda, hvort sem það er landgræðslan eða skógræktin eða þeir vísindamenn sem eru í háskólunum, til þess að geta verið sá róttæki, framfarasinnaði landbúnaður sem Samfylkingin hefur stundað talað um að þurfi að vera. Þess vegna var ræða mín ekki íhaldssöm.

Hins vegar ætla ég ekkert að deila um iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Ég gat þess hvað það væri skemmtilegt að hafa sett hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson í svolítið verkefni svo að hann gæti skrifað á bloggið sitt. Þá var ég fyrst og fremst að vísa til þess í ræðu minni að ég teldi kannski mikilvægt, og það var ætlun allra stjórnmálaflokkanna, að stofna til stærri ráðuneyta, fækka þeim þess vegna niður í 10, færa skyldari verkefni saman. Það er engin leið að dæma ræðu mína íhaldssama þótt ég álíti það reyndar kost að vera svolítið staðfastur og íhaldssamur með róttæku ívafi. Ég hef þess vegna svo sem ekkert áhyggjur af vegferð minni í þeim efnum. Ég held að það sé eitthvert eðli sem einkennir flesta stjórnmálamenn, jafnvel suma þeirra í Samfylkingunni. Ég hefði talið að Stjórnarráðinu ætti að breyta (Forseti hringir.) með öðrum hætti en var gert í vor og færa (Forseti hringir.) fleiri verkefni saman og gera þau stærri og sterkari.