135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

stefna stjórnvalda í loftslagsmálum.

[14:05]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er nú einu sinni þannig að fólkið í landinu hefur kosningarrétt og kýs fulltrúa sína á Alþingi sem síðan mynda ríkisstjórnir og stjórnarandstöðu.

Ég skal svara því strax, frú forseti, að ég er ekki einmana í ríkisstjórn Íslands eða sit ein þar inni eins og einhver hrópandi í eyðimörkinni eins og helst mátti skilja af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Við höfum skipað starfshóp að minni tillögu um loftslagsmálin í ríkisstjórninni. Í honum sitja auk mín hæstv. iðnaðarráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra og það verður unnið saman að því sem gera þarf í þeim málum innan ríkisstjórnarinnar í vetur og á þessu kjörtímabili.

Menn kvarta hér mjög yfir því að ekki hafi verið gripið til raunhæfra aðgerða. Ég get að mörgu leyti tekið undir það. Ég hef setið í umhverfisráðuneytinu í tæpa fimm mánuði og ég skal alveg viðurkenna að það mun verða býsna stórt verk að vinna upp þann tapaða tíma sem fyrirrennarar mínir þar í starfi töpuðu á síðustu kjörtímabilum í þessum efnum. Það verður bara að horfast í augu við það og það er eins og það er. En við erum búin að bretta upp ermarnar. Það er allt í gangi og við vonumst til þess að næsta vor og næsta sumar getum við lagt fyrir raunhæfa aðgerðaáætlun um samdrátt í gróðurhúsalofttegundum hér á landi. Ég heyri ekki betur en að allir stjórnmálaflokkar á hinu háa Alþingi styðji það og ég vænti þess að það myndist þverpólitískur stuðningur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, um tímasett og tölusett markmið sem litið geti dagsins (Gripið fram í.) ljós á næsta ári, að þetta verði stutt af öllum á hinu háa Alþingi undir því markmiði sem sett var í febrúar í vetur um 50–75% samdrátt í gróðurhúsalofttegundum árið 2050 (Gripið fram í.) og ég hlakka til að leggja það fyrir (Forseti hringir.) á komandi þingi.