135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:33]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti efnislega ræðu og spurði nokkurra spurninga, m.a. hvort breytingum varðandi matvælaeftirlitið tengdust einhverjar hugmyndir um að gera breytingar á matvælaeftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Það er ekkert í þessu frumvarpi um það og það eru engin áform í þeim efnum. Ef einhverjar slíkar breytingar væru á döfinni yrðu þær aldrei gerðar, eins og hv. þingmaður veit enn betur en ég, nema í samkomulagi við sveitarfélögin, slíkt færi inn í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og yrði að gerast í samkomulagi við sveitarfélögin. Um það eru í sjálfu sér engin áform á þessari stundu, a.m.k. ekki sem mér er kunnugt um.

Í öðru lagi velti hv. þingmaður svolítið fyrir sér hvernig við stöndum að breytingunum á matvælaeftirlitinu. Niðurstaðan var sú að skynsamlegast væri allra hluta vegna að reyna að byggja á einni af þeim þremur stofnunum sem í dag annast matvælaeftirlit. Þegar við förum yfir það þá er það svo að langstærsti hluti starfsemi Landbúnaðarstofnunar er í raun og veru matvælaeftirlit. Það lá því beinast við að byggja hina nýju stofnun utan um Landbúnaðarstofnun því það ylli minnstri röskun og gerði það að verkum að stofnunin gæti sem best haldið áfram og kallaði þar með á að ekki væri verið að ráða nýjan forstöðumann Landbúnaðarstofnunar sem verður matvælaeftirlitið, heldur byggja utan um þá stofnun sem fyrir er starfsemi sem fram að þessu hefur farið fram í þremur stofnunum.

Ég held að miðað við aðstæður sé þetta það skynsamlegasta sem hægt var að gera í þessum efnum og tryggi ákveðna samfellu í starfi þessara stofnana. Gert er ráð fyrir að þessi yfirgangstími fari fram með sérstökum hætti sem gerð er grein fyrir í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu. Ég trúi því að hægt verði að koma þessu matvælaeftirliti á með góðu móti á næsta ári þó að ljóst sé að í starfsumhverfinu gerast heilmiklar lagalegar breytingar sem taka þarf tillit til.