135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:40]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fylgi fordæmi annarra hv. þingmanna sem hér hafa talað og óska helst eftir því að hæstv. forsætisráðherra sé í salnum þegar þetta mikilvæga mál er rætt, enda hefur prýðileg umræða farið fram um þetta frumvarp, tel ég, og ýmsar góðar og málefnalegar athugasemdir komið fram.

Það er sjálfsagt að rifja aðeins upp aðdragandann að þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á ráðuneytum með því að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í eitt ráðuneyti og skipta í staðinn upp iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti. Auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvaða gagni þessar breytingar eiga að þjóna því að ég lít svo á að þetta sé ákveðin áherslubreyting. Eins og margir fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa bent á er hér annars vegar um að ræða hina nýju atvinnuvegi og þeim lyft með sérstökum ráðuneytum og hins vegar eru sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn sameinaðir í eitt ráðuneyti og þar með jafnvel dregið úr mikilvægi þeirra greina. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ætlunin því vissulega eigum við mörg sóknarfæri, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði, og ef við t.d. bara horfum á landbúnaðinn og þær miklu alþjóðlegu breytingar sem eru fram undan í landbúnaðarmálum tel ég mjög mikilvægt að við Íslendingar séum tilbúin að bregðast við þeim með því að tefla fram nýjum valkostum í landbúnaði. Vil ég þá sérstaklega nefna lífrænan landbúnað og horfa til þeirra kosta sem íslenskar landbúnaðarvörur hafa fram yfir ýmsar landbúnaðarvörur sem framleiddar eru í því sem hefur verið kallað verksmiðjulandbúnaður eða annað slíkt. Við eigum færi á að þróa hér allt annars konar landbúnað þannig að ég tel að sóknarfærin í þessari atvinnugrein séu gríðarleg svo að ekki sé minnst á að tengja landbúnaðinn við ferðamennsku og annað slíkt. Því velti ég því fyrir mér hvort ætlunin með þessari sameiningu hefi verið að draga á einhvern hátt úr mikilvægi þessara tveggja atvinnuvega.

Ef svo er ekki hefði ég haldið að betra væri að ganga alla leið í endurskoðun Stjórnarráðsins og gefa sér meiri tíma í það og horfa þá jafnvel á fækkun ráðuneyta í eitt atvinnuvegaráðuneyti eins og stundum hefur verið ámálgað. Ég velti því þá fyrir mér af hverju ekki var ráðist í þá grundvallarendurskoðun með fækkun ráðuneyta að markmiði og breytta tilhögun stjórnsýslunnar því að þessar grunnbreytingar, sem eru undirstaðan fyrir þetta frumvarp, eru auðvitað umdeilanlegar því að þær sýna ákveðnar áherslubreytingar að ég tel og dregið er úr mikilvægi þessara þátta á sama tíma og bæði landbúnaður og sjávarútvegur ganga í gegnum gríðarlegar breytingar, landbúnaðurinn af þeim sökum sem ég nefndi áðan, alþjóðlegum breytingum og breyttu umhverfi landbúnaðar í heiminum, og sjávarútvegurinn út af ástæðum sem við þekkjum öll og hafa nú ekki lítið verið ræddar í þinginu að undanförnu.

Þetta varðar grunn frumvarpsins en mig langar að ræða hér einstaka efnisþætti þess. Í fyrsta lagi tilfærslu háskólanna, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Hólaskóla, frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti undir menntamálaráðuneyti, sem ég tel í sjálfu sér að mörgu leyti eðlilega breytingu. Reyndar hafa þessir skólar unað hag sínum prýðilega undir landbúnaðarráðuneytinu en á þeim hafa auðvitað orðið miklar breytingar á undanförnum árum, þeir hafa færst upp á háskólastig, rannsóknir hafa aukist, alþjóðlegt samstarf við háskóla, þannig að í sjálfu sér getum við sagt að hefðbundnir búnaðarskólar hafi þróast í það að verða háskólar og í því tel ég hvíla mikil sóknarfæri.

Ég veit að skólafólk á báðum þessum stöðum hefur undirbúið sig undir tilfærsluna og lagt fram hugmyndir um hvernig hún megi best fara. Ég hjó þó eftir því í greinargerð og í framsögu hæstv. forsætisráðherra að þar er sérstaklega rætt um rannsóknasamning við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, vænti ég, en ekki er tiltekið nákvæmlega hvað verður gert með Hólaskóla, þ.e. hér er rætt um tekjur Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og gert er ráð fyrir að núverandi fjárframlög og sértekjur skili sér að fullu til Landbúnaðarháskólans og síðan kveðið á um það að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og menntamálaráðherra skuli standa í sameiningu að gerð rannsóknasamnings við skólann til 3–5 ára og þar af muni ákveðnir fjármunir, þ.e. 160 millj. kr., verða vistaðir hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Ég tel að það sé mjög skynsamlegt að tengja þarna rannsóknirnar við atvinnuvegaráðuneytið en ég velti því fyrir mér hvort Hólaskóli eigi þá að fá sambærilegan samning eða hvort hann sé inni í þessari tölu, mér finnst aðeins vanta skýringar á þessu í greinargerðinni. Þetta þarf að gera til þess að það sé í rauninni flæði á milli skólanna annars vegar og atvinnuveganna hins vegar, til þess að hægt sé að tryggja rannsóknir, þróun og nýsköpun í greininni og þar komum við aftur að því sem ég nefndi áðan, ég tel að landbúnaður á Íslandi eigi sér mikil sóknarfæri og þau verða auðvitað best nýtt með því að þessum skólum séu tryggð framlög til rannsókna og þeir geti beitt sé fyrir fjölbreyttum rannsóknum á þessu sviði til þess að stuðla að aukinni nýsköpun í greininni.

Ég tel að það gæti í rauninni reynst ágætisspor að flytja þessa skóla og setja þá í samhengi við aðra skóla á háskólastigi og auðvitað er umtalsvert samstarf nú þegar milli þessara háskóla og annarra háskóla þannig að í sjálfu sér er það fullkomlega eðlileg breyting.

Hitt atriðið sem ég vil nefna tengist tilflutningi Landgræðslu og Skógræktar til umhverfisráðuneytisins. Eins og við vitum fagnaði Landgræðslan 100 ára afmæli sínu núna á haustdögum og það er táknrænt að hún hét upphaflega Sandgræðsla ríkisins sem segir sitt um tilgang þessarar stofnunar. Ég tel að þessi tilflutningur á Landgræðslunni geti einnig orðið til góðs enda hafa Sameinuðu þjóðirnar nýlega sent frá sér skýrslu um að landeyðing sé eitt stærsta umhverfisvandamál samtímans. Þegar maður skoðar sögu landgræðslu í ólíkum löndum held ég, af því að hér hefur mönnum orðið tíðrætt um útrás þekkingar að Íslendingar ætti kannski að fara í útrás á þekkingu sinni í landgræðslu og segja má að Landgræðslan hafi í raun þegar stigið skref í þá átt með þeirri alþjóðlegu ráðstefnu sem haldin var hér á landi í haust þar sem rædd voru umhverfismál í alþjóðlegu samhengi, ekki síst í tengslum við loftslagsbreytingar og mikilvægt hlutverk landgræðslu um heim allan til að sporna gegn þeim. Ég tel að það geti skapað ákveðið faglegt samhengi við náttúruvernd í landinu að flytja Landgræðsluna og þannig verði sjónarmið náttúruverndar í heiðri höfð við þennan tilflutning. Þessu nátengt er landvarslan sem heyrir undir umhverfisráðuneytið en við þekkjum það að Landgræðslan hefur unnið gríðarlegt starf í að græða upp land og bæta land en það er til lítils að bæta land þegar því er jafnóðum spillt t.d. með utanvegaakstri sem er sívaxandi vandamál á okkar ágæta landi og þá skiptir auðvitað máli að efla landvörsluna og hún heyrir undir umhverfisráðuneytið. Þarna erum við því að tala um nátengda þætti.

Hins vegar er spurningin um Skógræktina og þar eru uppi tvö sjónarmið sem ég tel að bæði séu mikilvæg. Annars vegar að skógrækt er búgrein, kannski ein mest vaxandi búgrein á landinu, og hins vegar að skógrækt er umhverfismál, hvernig við ræktum skóg, hvar við ræktum skóg og hvernig skóga við ræktum. Mér finnst að þessa umræðu þurfi að dýpka verulega áður en hægt er að taka afstöðu í þessu máli og ég sé ekki betur en að frumvarpshöfundar hafi komist að sömu niðurstöðu því að þeir taka í raun ekki afstöðu í þessu máli með því að kljúfa Skógræktina þannig að hluti hennar færist undir umhverfisráðuneytið og nytjaskógarnir sitja eftir í landbúnaðarráðuneytinu. Mér finnst skorta á ákveðnar skýringar á þessu og umræðu um nytjaskógana. Hvað á að felast í þeim, lúta þeir ekki sömu umhverfissjónarmiðum og hvernig getum við ræktað skóg sem er á einhvern hátt ekki til nytja? Mér finnst vanta umræðu þarna því ég tel erfitt að gera skýran greinarmun þarna á milli. Þarna erum við hugsanlega að tala um einhverjar breytingar á stofnunum og þess vegna tek ég undir orð hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem talaði áðan um að það væri við hæfi að fagnefndir fengju einstakar greinar þessa frumvarps til skoðunar og umsagnar, ekki aðeins allsherjarnefnd. Ég tel að það sé t.d. fullkomlega eðlilegt hvað varðar háskólana að ræða um þá í menntamálanefnd annars vegar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hins vegar og þetta dæmi tel ég að umhverfisnefnd Alþingis og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis ættu að taka til skoðunar því að þetta er mjög fagleg umræða, það skiptir máli að faglega sé staðið að því hvernig við hugum að framtíðarskipulagi skógræktar í landinu. Þetta er líklega eitt heitasta pólitíska mál sem hefur verið til umræðu á Íslandi á 20. öld og menn hafa orðið gríðarlega heitir í umræðum um það þannig að ég held að þarna þurfi að vanda gríðarlega til verka.

Annað sem ég get tekið undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér er framtíð þessara stofnana, það er náttúrlega margt á huldu um framtíðarskipulag stofnana sem heyra undir umhverfisráðuneytið. Er ætlunin að sameina þessar stofnanir ef flytja á landgræðslu og skógrækt undir ráðuneytið? Á að ganga lengra með að sameina þær? Stendur eitthvað slíkt til eða er það í raun allt óráðið? Að því leyti, af því að þessi umræða hefur ekki verið tekin og verður varla tekin hér nema við fáum umsagnir fagaðila og umræðuna innan úr stofnunum sjálfum, þá tek ég undir þau orð sem féllu hér áðan hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að það sé við hæfi að færa þessa umræðu einnig út í fagnefndirnar, því að þetta er ekki bara lagatæknilegt spursmál heldur faglegar spurningar sem svara þarf á faglegum grunni á réttum stöðum í stjórnkerfinu.