135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alls ekki vikið að hv. þingmanni Guðna Ágústssyni á þann veg að ég teldi að hann væri þröngsýnn í afstöðu sinni til einstakra þátta í frumvarpinu. Ég vil líka að honum sé það ljóst að þau sjónarmið hef ég ekki sett fram þótt við séum ekki að öllu leyti sammála í afstöðu okkar til málsins.

Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að rannsóknir á auðlindum, hvort sem það er hafið, lífríki hafsins, botninn eða landið, eigi að vera á höndum umhverfisráðuneytisins. Það á að vera umhverfismál. Á þær auðlindir ber að líta út frá almennum sjónarmiðum en ekki atvinnuvegatengdum sjónarmiðum.

Hins vegar er markalínan kannski ekki alveg skýr eins og sjá má í þessu frumvarpi þar sem kemur fram að samkomulag er um hagnýt rannsóknarverkefni, að áfram verði fjármunir til þeirra vistaðar undir forræði atvinnuvegaráðuneytisins. Þetta er eitt af því sem ég tel að þingið verði að skoða og nefndin sem fær málið til umfjöllunar eigi að fara ofan í, hvernig eigi að draga línuna á milli atvinnuveganna og umhverfisráðuneytisins. Það kann að vera skynsamlegt eins og þarna er lagt til að rannsóknirnar skiptist milli ráðuneyta eftir því hvers eðlis þær eru og í hverra þágu.