135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur tortryggni að í þessu frumvarpi skuli hvergi vera getið um neina nálgun á útfærslu um stöðu Hóla. Hæstv. ráðherra upplýsti fyrr í umræðunni að verið væri að skoða það. Mér finnst svör hans hér varðandi stöðu Hóla mjög fátækleg.

Það hafa heldur ekki verið færð nein rök fyrir því hvers vegna verið er að flytja skólana til. Hæstv. ráðherra segir bara af því bara, og honum finnist að þeir eigi að vera undir menntamálaráðuneytinu o.s.frv. Ég spurði hvort það hefði gefist illa að hafa þá undir landbúnaðarráðuneytinu. Það komu engin svör við því, enda hefur þeim vegnað mjög vel og þetta eru sterkustu dreifbýlisstofnanir á Íslandi. Þessir staðir hafa verið virkilegt flaggskip fyrir landsbyggðarmenninguna, fyrir atvinnulíf vítt og breitt um landið. Er það endilega brýnast hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að draga niður fána þessara stofnana eða tefla framtíð þeirra í hættu með því að rokka þeim til á milli ráðuneyta án tilgangs, bara af því að mönnum „finnst“ það? Mér finnst þetta ekki vera rök, herra forseti, og ég ítreka spurningu mína um þetta. Það er algjörlega blankó, algjör eyða í frumvarpinu um það hvernig tekið skuli á málefnum Hóla. Ég spyr forsætisráðherra sem leggur málið fram og hann getur engu svarað. Ég tel það alvarlegt mál.

Ég krefst þess að staðinn verði vörður um sjálfstæði Hólaskóla og Hólastaðar. Hólaskóli er meira en skóli, þetta er Hólastaður, þetta er menntasetur, þetta er (Forseti hringir.) sögusetur þjóðarinnar (Forseti hringir.) og á ekki að vera undirorpið því hvort ráðherra situr í þessu eða þurfi að fá þetta eða hitt.