135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn og hæstv. ráðherra hafa látið í veðri vaka að hér væri hreinlega um tæknilega útfærslu að ræða. Þeim finnist betra að hafa málaflokk undir þessu ráðuneyti heldur en hinu. Það eru einu rökin. En í þessu felast gríðarlegar pólitískar áherslur og skilaboð til þeirra greina, verkefna og stofnana sem um er að véla. Ég trúi ekki að hæstv. forsætisráðherra geri sér ekki grein fyrir því að með þessu eru send skilaboð til viðkomandi atvinnugreinar. Það er ekki bara verið að skipta ráðuneytum milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það er verið að gefa skilaboð um áherslur, og hvar er borið niður? Jú, það er borið niður með því að lama landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti.

Það kemur kannski ekki á óvart miðað við þá ríkisstjórnarsamsetningu sem núna er, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, að þannig sé unnið. Ég ítreka að það eru pólitískar ástæður fyrir því að stofnanirnar Hólar og Hvanneyri eru reknar. Það eru líka pólitískar ákvarðanir ef á að veikja þær og það eru pólitísk skilaboð í því að í þessu frumvarpi er ekki hálf setning um Hólaskóla. Þó er þar ákvörðun um að færa hana milli ráðuneyta. Skólinn hefur þurft að berjast fyrir stjórnsýslulegu lífi sínu frá byrjun. Hann er skilinn eftir svona með fátæklegum svörum hæstv. forsætisráðherra.