135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[16:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt frumvarp um breytingu á raforkulögum sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur og ég vil gjarnan heyra hvort hæstv. iðnaðarráðherra er nærhendis. Ég er með spurningar til hæstv. iðnaðarráðherra.

(Forseti (MS): Já, hæstv. iðnaðarráðherra gengur í salinn.)

Það er svo glæsilegt að sjá hvernig hæstv. iðnaðarráðherra gengur í salinn að mér vex ásmegin.

Þetta frumvarp er um breytingu á raforkulögum og er tvíþætt. Annars vegar er verið að árétta að í dreifikerfinu sé sérstök viðbragðsáætlun til staðar til að tryggja afhendingaröryggi raforku og mér finnst það mjög gott, bæði neyðarsamstarf raforkukerfisins, neyðarstjórnun í vá, og viðbragðsáætlun. Ég tek undir það sem skín í gegn í frumvarpinu að þetta hafi ekki verið í nógu góðu lagi, sérstaklega, hefur mér skilist, eftir að farið var að hlutafélagavæða t.d. Rarik því þá var jafnframt farið í hagræðingu þannig að þetta hefur orðið þar utanveltu, a.m.k. er ástæða til að sett séu sérstök ákvæði í lög um viðbragðskerfið því að þegar sett er vaxandi arðsemiskrafa á þjónustu eins og raforku kemur það venjulega niður á notendaörygginu. Við þekkjum það frá öðrum löndum þar sem raforkukerfið hefur verið einkavætt og menn hafa hugsað um hvernig þeir geti náð út úr því pening og arði að þá hefur það komið niður hjá afhendingarörygginu með alvarlegum afleiðingum eins og við höfum heyrt. Heilu álfurnar, heilu löndin hafa orðið raforkulaus vegna þess að ekki var til staðar nein viðbragðsáætlun sem gilti. Mér finnst þetta gott tiltak hjá hæstv. ráðherra.

Hins vegar er verið að endurskilgreina stórnotendur og ég hélt þá að þetta gæti jafnvel náð til mín, að nú ætti að fara að lækka rafmagnið til mín af því að það á að fara að lækka raforkuna til stórnotenda og lækka viðmiðin til stórnotenda. Við höfum heyrt að álverin hafi áður verið titluð sem stórnotendur og verið talin merkilegustu raforkunotendur á landinu og þess vegna hafi þau notið svona sérkjara. Almenningur og almennur atvinnurekstur í landinu hefur ekki notið þeirra sérkjara og ekki verið talinn eins merkilegur raforkunotandi. Nú á að fara að færa þetta niður og mér finnst það svo sem ágætt mál. En til þess að fara út í svona aðgerð er náttúrlega frumskilyrði að við vitum hvað er verið að lækka, hvaða verð er verið að fara niður með. Þess vegna hlýtur það að vera jafnsjálfsögð og eðlileg krafa að jafnframt sé gefið upp hvert verð á raforku er. Ég minnist þess að á hinum góðu árum stjórnarandstöðunnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, stóðum við saman að slíkri kröfu, að raforkuverð væri gefið upp hvað varðaði stóriðju og stórnotendur alveg eins og raforkuverð til mín er gefið upp sem mér finnst eðlilegt.

Ég minnist þess að ég las viðtal við mann — ég man ekki nafnið á honum en það var mjög virtur maður — um samkeppnismál og hvernig best væri að þróa heilbrigða samkeppni í atvinnurekstri. Hann sagði að númer eitt væri gagnsæi. Til að þróa heilbrigða samkeppni og til að hún fengi að þróast með eðlilegum hætti væri mikilvægt að allar grunnforsendur væru gagnsæjar í því sem keppt væri um. Mér fannst þetta mjög eðlilegt. Ef hér á að vera samkeppni á raforkumarkaði er náttúrlega grunnatriði að verðið sé opinbert. Það gefur augaleið og ætti ekki að þurfa að ræða. Mér finnst því alveg einboðið og spyr hæstv. ráðherra: Hví er ekki stigið það skref sem er eðlilegt og við höfum áður talið eðlilegt að raforkuverð til hvaða notenda sem er sé opinbert?

Hitt er svo að skilgreina hver er stór og hver er smár varðandi þjónustu og verð af hálfu hins opinbera. Þá verð ég að segja að þar er ég ekki á allan hátt sammála því að sá sem er stór eigi að fá að njóta einhverra sérkjara en hinn sem er smár eigi ekki að njóta þeirra. Þetta stríðir gegn jafnræðisreglunni. Og ég velti fyrir mér, hvar er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar varðandi það að hvorki skuli einstaklingum né fyrirtækjum mismunað af hálfu stjórnvalda, af hálfu stofnana sem eru í eigu og á ábyrgð stjórnvalda? Með því að gefa mismunandi verð án þess að það sé meira að segja gefið upp er að mínu viti verið að ganga á svig við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar.

Hverjir eru þá stórnotendur? Jú, það er talað um álverin sem stjórnvöld síðustu ára hafa skriðið fyrir varðandi meðgjöf t.d. með rafmagni og öðru. Það eru kannski til fleiri stórnotendur ef við viljum fara að tala um stórnotendur. Hvað um ferðaþjónustuna í landinu? Er hún ekki stór atvinnuvegur? Er hún ekki stór notandi? Er hún ekki sú atvinnugrein sem er að skila hvað mestum ábata í þjóðarbúið, hefur vaxið hvað mest og skilar hlutfallslegum langmestum ábata fyrir þjóðarbúið? Hvernig er hún stödd með verð á raforku? Í nýlegri samþykkt frá Ferðaþjónustu bænda kom fram að verð á rafmagni til ferðaþjónustu t.d. í dreifbýli hefur kannski hækkað um 30–40% á síðustu tveimur árum og er gríðarlega íþyngjandi fyrir þessa atvinnugrein. Ef hæstv. ráðherra ætlar að fara að sýna einhverja viðbótarmildi og fara að flokka upp á nýtt þá sem eru stórnotendur finnst mér alveg kjörið tækifæri að flokka ferðaþjónustuna í landinu sem stórnotanda. Af hverju á hún að greiða niður rafmagnið fyrir álverin? Af hverju á hún að fara að greiða niður rafmagnið fyrir væntanleg netþjónabú? Á meðan rafmagnsverð er ekki gefið upp vitum við ekki hve mikið er verið að greiða niður. En af hverju á ferðaþjónustan í landinu að greiða niður rafmagn þessara aðila? Ég spyr hæstv. ráðherra: Getum við ekki tekið ferðaþjónustuna og sagt: Ferðaþjónustan er stór atvinnuvegur í samkeppni og við skulum lækka til hennar raforkuverðið þannig að hún geti verið samkeppnishæf? Í stað þess að láta það snarhækka, um tugi prósentna á síðastliðnum árum. Ég spyr því fyrir hönd ferðaþjónustunnar sem á að fara undir hæstv. ráðherra frá næstu áramótum: Væri ekki rétt að styrkja samkeppnisstöðu þessarar atvinnugreinar, einnar stærstu atvinnugreinar landsins, með því að láta ferðaþjónustuna fá raforkuna á álprís eða netþjónabúaprís? Hvar er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar, hvar er mesti þjóðhagslegi ábatinn af því að lækka raforkuverð?

Sama er með fiskvinnsluna. Hv. þm. Björn Valur Gíslason er með fyrirspurn á þinginu einmitt um verð á raforku til fiskvinnslu og hvort ekki megi lækka verð á rafmagni til fiskvinnslu. Samkvæmt síðustu upplýsingum sem ég fékk fyrr á árinu borgar fiskvinnslan fimm- eða sexfalt verð fyrir raforkuna miðað við það sem álverin borga og samt er þetta atvinnugrein sem er í harðri samkeppni og á nú virkilega undir högg að sækja og þetta er atvinnugrein þar sem verið er að beita sérstökum mótvægisaðgerðum til að bjarga henni yfir einhvern hjalla. Ein besta mótvægisaðgerðin væri að láta hana hafa raforkuverð á áltaxta og hún mundi skila miklu meiri ábata en álverin fyrir það verð. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra aftur: Hve lengi á að brjóta jafnvægisregluna gagnvart mismunun í verði á raforku, raforkuverði og flutningi á raforku, verði á raforkunni sjálfri? Ef hæstv. iðnaðarráðherra hefði líka verið viðskiptaráðherra og þar með ráðherra samkeppnismála hefði líka verið mjög eðlilegt að hann svaraði þessari spurningu: Er það til að styrkja heilbrigða samkeppni og skapa eðlilegt umhverfi í samkeppni í atvinnurekstri að leyna opinberu verði, verði sem viðkomandi aðilar fá grundvallarþjónustu sína á og skiptir máli um samkeppnishæfni þeirra? Er það liður í að styrkja öfluga samkeppni? Nei, liður í að styrkja öfluga og heilbrigða samkeppni er að gefa upp verðið, að allt sé uppi á borðinu. Þá getur heilbrigð samkeppni, a.m.k. á þeim forsendum, blómstrað en ráðherra virðist ætla að velja það að halda því leyndu.

Herra forseti. Ég vil ítreka spurningu mína um aðrar atvinnugreinar, ferðaþjónustuna, fiskvinnsluna, garðyrkjuna. Það er sérstakur samningur um niðurgreiðslu á raforku til garðyrkju, er ekki svo? En þó er fjarri því að það sé með þeim hætti að það gefi samkeppnisstöðu miðað við aðrar atvinnugreinar. Hvers eiga aðrar atvinnugreinar að gjalda að verða að borga niður rafmagnið fyrir álverin og nú ef á að bæta því við að þeir eigi líka að fara að borga fyrir rafmagnið fyrir hugsanleg netþjónabú? Látum þessar atvinnugreinar njóta þess að við erum að framleiða orku sem ætti að geta styrkt samkeppni þeirra frekar en láta þær ganga undir atvinnugreinum sem litlum þjóðhagslegum ábata skila.