135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[17:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er ekki verið að tala um verð á raforku heldur verðið sem menn þurfa að greiða fyrir flutning á raforku. Það liggur fyrir og kom fram í máli mínu í morgun að það er fimmfalt dýrara fyrir smánotendur að fá raforku flutta með þeim hætti sem þeir fá í dag miðað við þá sem eru skilgreindir sem stórnotendur.

Hv. þingmaður segir að það geti vel verið að þetta sé gott mál. Ég veit ekki hvort þeir taka svona slælega undir þetta á Sauðárkróki sem hafa sérstaklega beint þeim tilmælum til iðnaðarráðuneytisins að ráðuneytið hlutist til um að greiða för gagnamiðstöðvar af þessu tagi út á landsbyggðina og m.a. til Sauðárkróks. Ég get upplýst hv. þingmann um að Sauðárkrókur er í hópi þeirra 10 sveitarfélaga sem eru í samstarfi í gegnum Fjárfestingarstofuna við iðnaðarráðuneytið um að reyna að draga starfsemi af þessu tagi í heimabyggðina.

Hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um það að ef hægt væri að koma upp þjónustu og starfsemi af þessu tagi á stöðum eins og Sauðárkróki þar sem hugsanlega 10–15 manns fengju atvinnu við það, hljóti það að vera af hinu góða. Mér finnst eins og hv. þingmaður sé á þeirri skoðun að svo sé ekki og mig furðar það auðvitað. Það er þá allt annar Jón Bjarnason en sá hv. þingmaður sem ég hef kynnst hér og átt orðastað við á síðustu árum og missirum.

Hvað varðar síðan jafnræðið og samkeppnisgetu og hæfni ferðaþjónustunnar þá er ég auðvitað alveg sammála honum að það ber að grípa til aðgerða ef hægt er að benda á þær til að styrkja hana. En á að gera það sérstaklega? Vill hv. þingmaður að ferðaþjónustan fái rafmagn sem dreift yrði á lægra verði til hennar en t.d. smásöluverslana í sama byggðarlagi eða fiskvinnslustöðva? Hv. þingmaður verður að skýra út fyrir mér rökin sem liggja þar að baki vegna þess að þá væri ég að brjóta jafnræðisreglu (Forseti hringir.) stjórnarskrárinnar og það viljum við ekki.