135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

vatnalög.

94. mál
[17:16]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006.

Iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti.

Á 132. löggjafarþingi samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra vatnalaga og er þeim ætlað að leysa af hólmi gildandi vatnalög. Við þinglega meðferð málsins varð samkomulag meðal allra flokka á þingi um að fresta gildistöku nýju laganna til 1. nóvember 2007 og jafnframt að sérstakri nefnd yrði komið á fót til að rannsaka lagasamræmi og yfirvofandi breytingar á sviði vatnamála.

Í frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku nýju vatnalaganna verði frestað enn um sinn eða til 1. nóvember 2008 þar sem ekki hefur orðið af skipun umræddrar nefndar. Nefndin leggur til að gildistöku laga nr. 31/2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, verði einnig frestað — í meðförum nefndarinnar kom það upp að þessi mál tengdust — en þeim lögum er ætlað að taka gildi sama dag og nýju vatnalögunum. Því leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu sem er sú að á eftir 2. gr. komi ný grein sem orðist svo, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum nr. 31/2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti: Í stað „2007“ í 1. mgr. 2. gr. kemur: 2008.“

Þar er sem sagt gerð breyting á ártalinu 2007 í 2008.

Það var yfirlýstur tilgangur breytingar laganna sem ég nefni hér að færa tilteknar heimildir fasteignaeigenda í nýju vatnalögunum til að verjast landbroti yfir í lög um varnir gegn landbroti. Landbúnaðarnefnd fjallaði þá um málið og taldi eðlilegt að gildistími breytingar laganna færi saman við gildistíma nýju vatnalaganna enda ganga hin fyrrnefndu út frá því að hin síðarnefndu lög, þ.e. vatnalögin hafi tekið gildi.

Við höfðum samband við landbúnaðarráðuneytið og þessi breytingartillaga var unnin í samráði við þá þannig að við töldum rétt að hún fylgdi hér með við afgreiðslu þessa máls.