135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:50]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Efni og innihald ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar var um margt áhugavert og athyglisverðar upplýsingar sem þar komu fram. Hann gerir því skóna að um leið og þetta frumvarp yrði samþykkt kæmi krafan um það að ríkið hætti samkeppnisrekstri í áfengissölu og ég skil þau rök mætavel.

Mig langar hins vegar að beina spurningu til ræðumanns þar sem ég hef í raun viljað ganga lengra í þessu máli, ef á annað borð á að taka þessa löggjöf upp tel ég eðlilegra að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði lögð niður og allt vín verði selt í verslunum. Mun ekki koma fram krafa frá landsbyggðinni ef lögin verða samþykkt eins og þau liggja hér fyrir nú þar sem við vitum að hinum litlu og mörgu áfengisútsölum ÁTVR á landsbyggðinni verður lokað? Ég tel alveg skýrt að þeim muni öllum verða lokað þannig að framboð þessa varnings á landsbyggðinni verður með allt öðrum hætti en er í dag og verri. Þess vegna spyr ég: Telur hv. þingmaður ekki að það verði krafa fólksins sem býr á landsbyggðinni að framboðið verði með sama hætti og ekki verra en það er í dag? Ég vil líka benda á þau áhrif sem það getur haft á ferðaþjónustu ef verið er að aðskilja þetta.