135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ósammála því. Ég held að við eigum ekki að fara af stað í þennan leiðangur. Við eigum að hafa fyrirkomulagið eins og það er. Ef menn ætla sér að rýmka aðgengið að víninu verður að hækka verðið samhliða til þess að reyna að láta áhrifin vegast á þannig að neyslan aukist ekki.

Ég held að það sé langbest að hafa þetta eins og það er og ég held að við eigum að snúa við þeirri þróun sem hefur verið í gangi síðustu 20 ár. Alþingi á að hafa forgöngu um að hefja til vegs og virðingar önnur viðhorf til áfengis en hafa verið ríkjandi undanfarna áratugi sem hafa verið mjög áfengisvinsamleg og mjög höll undir hömluleysi og dýrkun á vímugjöfum. Ég held að menn eigi að snúa málinu við, snúa þróuninni við.

Ég held að fækka ætti sölustöðum og fækka þeim veitingastöðum sem hafa vínveitingaleyfi. Það ætti að fækka sölustöðum og hækka verðið. Það hefur verið að lækka á undanförnum árum, frá 1998 eins og ég rakti. Það ætti að hækka verðið aftur.

Við vitum hvað við þurfum að gera til að draga úr neyslunni. Við getum gert það, það er bara spurning um pólitískan vilja. Því miður hefur hann ekki verið eins sýnilegur vegna þess að kostnaðurinn af stefnunni kemur ekki fram í bókhaldi ríkisins með jafnglöggum hætti og tekjurnar. En menn skulu hafa það alveg fyrir víst að kostnaður ríkisins, bara ríkisins, svo ég tali ekki fyrirtæki og aðra aðila, af áfengisstefnunni er meiri en tekjurnar sem ríkið fær fyrir að selja áfengið. Það eru því skattgreiðendur sem hafa verið að borga kostnaðaraukann af breyttri áfengisstefnu á síðustu tveimur áratugum.