135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:56]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp sem einn flutningsmanna málsins og að þeim hefur hv. þingmaður beint nokkrum spurningum, m.a. þeirri hvort það sé ekki framtíðarsýn flutningsmanna að ríkið dragi sig alfarið út úr verslun með áfengi, sterk og létt vín. Því er einfaldlega til að svara að þetta mál er ákveðin tilraun til að ná einhverri sátt um að stíga ákveðið skref, stíga það skref að færa smásölu á léttvíni og bjór til einkaaðila en skilja sterka vínið eftir áfram hjá ríkinu. Ég vil koma því skýrt frá mér að til lengri tíma litið sé ég enga ástæðu til þess að ríkið standi í slíkum verslunarrekstri. Það er alveg klárt.

Það kemur auðvitað ekkert á óvart að það sjónarmið komi fram hjá hv. þingmanni að rétt sé að hækka álögurnar, fækka afgreiðslustöðum með áfengi og vínveitingaleyfum almennt. Þetta er auðvitað sjónarmið mikillar forsjárhyggju. Í þessu máli takast á ákveðin frelsissjónarmið um að treysta borgurunum til að umgangast þá vöru sem við erum að fjalla um og svo forsjárhyggjan, ákveðin afturhaldshyggja sem mér finnst skína mjög í gegn hjá hv. þingmanni. Þetta er allt saman litað mjög svarthvítum litum. Annaðhvort eru hlutirnir alveg arfavitlausir eða menn fara hina einu, sönnu, réttu leið sem að mati hv. þingmanns er núverandi fyrirkomulag en þó með stigvaxandi höftum og þvingunum á aðgengi að vörunni.