135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:59]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu andsvari. Það var mjög gott að fá fram viðhorf eins flutningsmanna til málsins og þess eina sem er flutningsmaður að öllum þremur málunum í þessum efnum, að opna fyrir áfengisauglýsingar á 97% af því víni sem selt er hér á landi. Samkvæmt því frumvarpi sem hann hefur verið flutningsmaður að yrði heimilt að auglýsa áfengi sem er 22% að styrkleika og minna og það nær til 96% af sölunni. Það er ekki bara bjór og léttvín, það eru líka líkjörar. Því er svolítið villandi að klæða það í þennan búning. Það er líka alveg ljóst hvað fyrir flutningsmanni vakir og það er hans skoðun, og auðvitað er það bara sjónarmið, að ríkið eigi ekki að vera í þessum rekstri. Hann vill að þessi vara verði almennt í verslunum. Hann vill líka að áfengiskaupaaldur verði 18 ár og ég geri ráð fyrir að hann haldi áfram að tala fyrir því.

En ef við leggjum þetta allt saman þá vitum við, út frá þeim rannsóknum sem liggja fyrir í mörgum löndum, hvað leiðir af þessu. Af þessu leiðir mikil aukning í neyslu og við vitum líka hvað það þýðir. Það þýðir bara vandamál, það þýðir kostnað, og hv. þingmaður er alveg eins og ég og hver annar þingmaður í þessum sal fulltrúi skattborgaranna, og sá kostnaður veltur yfir á skattgreiðendur. Hv. þingmaður er því að leggja til breytingar á fyrirkomulagi sem við höfum með þeim afleiðingum, svo við horfum bara á fjárhagslega hlið málsins en ekki aðrar hliðar sem verðskulda þó að vera ræddar í þessu máli, að tekjurnar fara til einhverra fárra einkaaðila en gjöldunum verður velt á skattgreiðendur. Það er út af fyrir sig sjónarmið en það er rétt að það sé skýrt.